Wednesday, October 1, 2014

Fígúrugangsframhald og kósýdagar

Já, sko. Emil meldaði sig veikan fyrsta og annan dag Svefnskólans, líklega verið skíthræddur við námsskrána. Í stað þess að mæta og nema, hefur hann verið með stanslausan fígúrugang í svefnmálum síðustu sólarhringa, eins og hann hafi ekki verið nægur fyrir!

Hér er hann þó greinilega að dreyma eitthvað mjög skemmtilegt!

Fyrir utan að allt sem nefnist rútína sé jafn fjarlægt og Plútó eða Mars, hafa næturnar nú náð sögulegu lágmarki. Að vakna á 40 mínútna fresti er arfaslök skemmtun og aðeins til þess fallin að fá innritun á Klepp. Mér líður stanslaust eins og ég sé þunn eftir þriggja daga verslunarmannahelgarfyllerí!

Hef því sjaldna fagnað veikindum nokkurs heimilsmeðlims af öðrum eins ákafa og kvefdrullu Gísla í vikubyrjun. Lifi kvefpestir.

Þrátt fyrir slappleika fór hann hamförum í eldhúsinu og bakaði bæði kanilsnúða og skinkuhorn.

Kakóstellið frá ömmu Jóhönnu er ekki rifið fram nema eitthvað mikið liggi við.


Sjálf er ég hinsvegar að gera heiðarlega tilraun til þess að ná af mér fæðingarkílóunum og reyni því af veikum mætti að forðast hvítt hveiti og sykur þessa dagana, enda verkfæri djöfulsins segja þeir.

Ég sat því og tróð í andlitið á mér Hveitikímskökum sem ég hef verið að prófa mig áfram með að undanförnu. Það ku víst vera ofurfæða og innihalda svo mikið af næringarefnum að leitun sé að öðru eins - meira en í öllu öðru korni eða grænmeti. Þetta sá ég á veraldarvefnum en sel það ekki dýrara en ég keypti það!Ég hef bæði sett kímið út í brauðbakstur en aðallega búið til "kökur" þar sem það er aðal uppistaðan.

Það er ótrúlega einfalt, tekur kannski þrjár mínútur að útbúa og þar að auku barasta mjög gott. Eh, já - eða svoleiðis.

Sú grunnuppskrift sem ég hef notað er þessi:

- 30 grömm hveitikím í eina köku (ég útbý mér yfirleitt tvær í hádeginu).
- Dass af fræjum eftir smekk (ekki nauðsynlegt en eykur enn næringargildið).
- Döðlur, finnst alveg nauðsynlegt að henda nokkrum döðlum út í til þess að fá smá sætu.
- Smá Maldonsalt.
- Heitt vatn (þar til deigið loðir saman og hægt er að móta úr því "klessukökur"

Gott er að setja pínu olíu á smjörpappírinn áður en kökurnar eru settar á. Þær eru a svo bakaðar við 180 gráður í nokkrar mínútur. Fínt að borða með kotasælu eða bara smjöri og osti.


Ha? Langaði gerbakstursátvöglunum í? Ekki endilega.

Annars er Facebooksíðan mín hér - rosa smellið að smella læki á hana ef þið viljið vera með puttann á púlsinum.

No comments:

Post a Comment