Móðir mín heiðrar mig alltaf með nærveru sinni á föstudögum. Kemur og hossar Emil ásamt því að drekka ótæpilegt magn af kaffi mér til samlætis. Ferlega notarlegt.
Það er orðin órjúfanleg hefð að baka þetta brauð fyrir þessar samverustundir.
4 dl spelt
2 dl tröllahafrar
1 dl graskersfræ
1 dl sólblómafræ
1/2 dl hörfræ
1/2 dl sesamfræ
5 döðlur - skornar í litla bita
2 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk sjávarsalt
4 dl Ab-mjólk
Blandið öllu saman, skellið í jólakökuform og bakið við 180 gráður á blæstri. Í 40 mínútur,
Etið upp til agna. Rosa gott með kotasælu, smjöri og osti, já eða bara hverju sem er.
Ég fer nú oftar en ekki frjálslega með uppskriftina, set bara þau fræ sem ég á hverju sinni. Einnig aðeins meira af döðlum, já eða svona helmingi! Í dag átti ég ekki Ab-mjólk og setti bara vatn í staðinn, fann ekki að það skipti nokkru máli. Strái svo pínu Maldonsalti yfir deigið áður en ég set það í ofninn.
Er alltaf á leiðinni að prófa að skipta döðlunum út fyrir grænar ólífur.
Er alltaf á leiðinni að prófa að skipta döðlunum út fyrir grænar ólífur.
Uppskriftin kemur upphaflega úr bókinni Heilsuréttir fjölskyldunnar eftir Berglindi Sigmarsdóttur, en hún og fyrri bókin hennar eru skyldueignir á hverju heimili. Það var þó nágrannakona mín sem kom mér á bragðið en hún kom færandi hendi með brauð í körfu einn daginn, alveg eins og í amerískri bíómynd.
Tengdamamma kom frá Noregi í vikunni. Hún kom ekki tómhent heim. Ó nei. Það sem börnin græddu, maður lifandi. Lengi lifi H&M og Lindex.
Fyrstu jólagjafirnar duttu inn um lúguna í dag. Já ég er byrjuð. Mig dreymir reglulega mikinn óreiðudraum, þar sem komin er Þorláksmessa og ég ekkert farin að gera. Vondur draumur fyrir steingeitur.
Grét aðeins í morgun. Það er svo sem engin nýlunda. Nú yfir viðtali við Bubba Morthens í Fréttatímanum. Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi Bubba eða tekið hann mjög alvarlega. En í dag felldi ég tár yfir sögu hans af því þegar kona hans fæddi andvana barn. Að missa barn er martröð allra foreldra og ekki auðveld lesning fyrir ósofnar ungbarnamæður. Úff.
Já, ég fór svo í klippingu á mánudaginn. Ég sem var að safna! Hafið þið heyrt þennan áður? Ætlaði að safna jafnsíðu hári, alveg langt niður á bak. Svona eins og allir. Þegar ég var búin að skarta gosbrunni í marga mánuði til þess að ná niður toppfjandanum, var mér allri lokið.
Átta mig svo alltaf á því í miðju hársöfunarferli að mig langar alls ekki neitt í jafnsítt hár. Finnst bara akkúrat ekkert spennandi við það og alveg laust við allan karakter.
Já það er alveg krúttlegt. En ekki til lengdar. Alls ekki heldur þegar hárið fýkur af manni eftir barnsburð og liggur í sátum út um alla íbúð. Jesús minn.
Um síðustu helgi fórum við í heimsókn til mágkonu minnar og fjölskyldu á Egilsstöðum. Toppurinn var að buga mig, gersamlega. Ekkert annað var í stöðunni en að fara inn á bað og stela eins og tveimur hárspreygusum. Eitthvað frekar lélegt sprey svona, greinilega ekkert verið að splæsa í "extra hold". Fór fljótlega aftur. Dassaði vænni gusu. Tók svo eftir því að alls ekki var um hársprey að ræða, heldur svitasprey húsbóndans. Einmitt. 12 stig.
Ég er komin heim.
P.s. Þessi ætlar að vera hjá mömmu sín um helgina. Ahhh. Barnið skutlaði mér út í bæ áðan og af því tilefni splæstum við í eina rándýra sjálfu.
Góða helgi.
No comments:
Post a Comment