Monday, October 13, 2014

Kaizen á verðandi unglingaherbergi


Kaizen er skemmtilegt orð sem ég lærði og notaði mikið þau ár sem ég vann í mannauðsteymi Alcoa Fjarðaáls. Orðið er japanskt og merkir stöðugar umbætur og var notað um skilgreinda umbótaviðburði víðsvegar um verksmiðjuna. 

Ég er afskaplega mikið fyrir að "kaizena" heima hjá mér og hef alltaf verið. Stöðugar umbætur. Líður aldrei betur en þegar ég er búin að tæta innan úr skápum og skúffum - henda, flokka, endurskipuleggja og litaraða. Nei, kannski ekki alveg, en svona allt að því. 


Á haustin umturnast skipulagsfíkillinn í mér og heimilismeðlimir hafa ekki farið varhluta af hamförum síðustu vikna. Eldhúsið kaizenað, hansahillurnar á ganginum fengu að finna fyrir því sem og flestir skápar og skúffur íbúðarinnar. 

Blessuð börnin eru þó löngu hætt að kippa sér upp við þetta og láta sér fátt um finnast. Einn daginn þegar Bríet kom heim úr skólanum spurði hún hvort ég gæti hjálpað sér að "kaizena" herbergið sitt.Mig hafði lengi klæjað í puttana að fara þangað inn en hafði einmitt vonað að hún bæri þessa stórskemmtilegu hugmynd upp sjálf! Verður 12 ára í desember og er því á mörkunum að vera barn og unglingur. Inni hjá henni kenndi ýmissa grasa sem hún vildi fara í gegnum og setja í geymslu.  

Ja, ekki stóð á mér. Við stálumst í nammi og hún tjúnaði upp unglinga-playlista af Spotify. Almáttugur minn. 


Bollastellið, dúkkurnar og ýmislegt annað fer nú í geymslu og bíður betri tíma. 
Við vorum í miklu stuði og allt varvoðalega smellið.Bríet minnir mig ansi mikið á sjálfa mig á þessum aldri - hún er sífellt að hanna hús og híbýli. Ætlar sér að verða arkitekt eða listamaður. 

Unnum eins og berserkir í einn og hálfan tíma. Emil fann að honum var ofaukið og svaf úti í vagni mestan hluta tímans. Þegar Þór skrönglaðist heim úr skólanum vorum við að klára og sýndum honum árangurinn, afar upp með okkur. 

Hann horfði í kringum sig, svo á Emil sem hafði verið lagður á teppi á gólfinu og sagði; "Létuð þið Emil liggja þarna allan tímann?" Daddara! Allt þetta á leiðinni í geymslu. Herbergiseigandinn var alsæll eftir og sagðist geta hugsað skýrar í herberginu sínu núna. Það sem ég skil hana. 


Rokk on - áfram Kaizen. 

No comments:

Post a Comment