Friday, October 17, 2014

Föstudags

Ó elsku föstdagar, Svo kærkomnir. 


Ákvað að breyta út af vananum og hvíla heilsubrauðið sem ég baka flesta föstudaga fyrir mömmu. Í dag var einnig von á fleiri gestum og því fátt annað í stöðunni en að henda í kjúklingasalat. 

Það spila ég oftast af fingrum fram. Í dag steikti ég fjórar bringur með með heilum chilli, fullt af hvítlauk og slettu af þessari hnetusósu.  


Auk þess heilan poka af blönduðu salati, papriku, tómata, rauðlauk, avakadó og fetaost.  

Punkturinn yfir i-ið er þó dressingin;

2 hvítlauksrif
Hunang (ca ein góð teskeið)
Dijon sinnep (ein teskeið)
Ólifuolía (dass)
Balsamikedik (dass)

Smakkist til út frá því hvort þið viljið hafa hana sæta, súra, eða sterka - eða dásamlega "passlega". Hefði vel getað troðið þessu fati í mig alveg ein og óstudd. 


B10 minnti einna helst á félagsmiðstöð um hádegisbilið þegar mér taldist til að um tíu manns hefðu verið samankomnir. Gaman, gaman. 

Hér má sjá ömmu Jónu vera að segja einhverja brjálæðislega skemmtilega sögu!



Tvíburarnir og bestu vinir Emils - Þóroddur Björn og Björg Inga létu sig ekki vanta. Hér er þó um "sviðsetta mynd" að ræða, eða úr þeirra húsi í liðinni viku. 

Emil þykir mikið til þeirra koma, enda fimm mánuðum eldri. Finnst Þóroddur fyndnari en allt sem fyndið er. 

Hefur þó ekkert í þau eins og er og verður að láta það yfir sig ganga að þau finni sig knúin til þess að hafa allt það dót sem hann er með - liggur bara eins og kartöflupoki á gólfinu. 

Leikar munu þó jafnast fljótlega og spáum við mæður þeirra að um sérlega fjörugan árgang verði að ræða!


Börnin heim!

Ekkert í heiminum betra, en aðskilnaðurinn kemst aldrei nokkurntíman upp í vana. Menntskælingurinn, sjöundi bekkingurinn og fjórði bekkingurinn. Að fá knús á hverju horni, hlátur og líf í kotið. Emil er heppinn strákur að eiga slíkan hóp. 

(Hér er einnig um sviðsetta mynd að ræða - tekin fyrir tæpu ári á 11 ára afmæli Bríetar.)


Í dag gerði ég einnig góðverk. Hér má sjá íþróttaskó húsbóndans, örlítið slitnir og bera merki um mikla notkun. 

Hann tók upp á því í vikunni að fara í þrektima klukkan sex á morgnana. Já, um miðja nótt. Kom heim og sagðist þurfa að æla á mánudagsmorguninn og hefur nánast ekki komist klakklaust upp og niður stiga alla vikuna. 

Hvað gerir besta kærasta í heimi þá? Gat hún látið sinn vera ælandi, haltan af harðsperrum OG í götóttum skóm. Nei er það?


Hans beið því pakki við heimkomu í dag. Mikið er ég góð!

Góða helgi. 

No comments:

Post a Comment