Monday, October 20, 2014

Jólalög dulbúin sem "sumarsmellir"



Fyrsti snjórinn er kominn á Reyðarfirði. Það sem hundslappadrífan féll falleg og friðsæl til jarðar.

 Stóðst ekki mátið að taka mynd af þessu krútthúsi sem ég átti leið hjá. Fannst ég um stund vera sögupersóna í bók eftir Asdrid Lindgren, búsett í Smálöndum. Á jólunum.

Snjórinn rammaði enn frekar inn jólaskapið sem helltist yfir mig um helgina, likt og vatn úr skúringafötu. 


 Eftir miðjan október eru einfaldlega komin jól í mínum kokkabókum. Rúmlega tveggja mánaða aðventa. Alltaf sama kitlandi tilfinningin.

Laumaði þessu seríuhrúgaldi í gluggann fyrir helgi svo lítið bæri á.


Reyni alltaf að pukrast með þetta ár hvert eins og laumu-reykingarmaður. Er ekkert sérlega góð í því, en reyni. 

Erfi þetta líklega frá móður minni sem alltaf var farin að hlusta á jólaplötu Brunaliðsins, Með eld í hjarta, fyrir allar aldir. Pálmi Gunnars og Ragga Gísla. Ahhhh. 

Heilkennið virðist svo hafa hoppað lóðbeint yfir í börnin mín. Mikið var ég ánægð í fyrra þegar unglingurinn minn útbjó jólalagalista á Spotifi, dulbúinn sem "Sumarsmellir". Það er töluvert síðan við mæðgin fórum að smella honum á fóninn í haust og tókum við góða rispu á honum síðasta föstudag. 


Tengdamóðir mín kórónaði svo allt saman í gær með því að bjóða okkur í hamborgarhrygg, brúnaðar kartöflur og jólabland í hádeginu í gær. 

Lyktin, bragðið, fegurðin. Nánast jólin. Alls ekki misskilja mig. Rjúpur eru sjálf jólin. Og skata. Hamborgarhryggurinn svona milli jóla og nýárs. En samt. 


Elsku, kveikið á kertum og njótið skammdegisins.

No comments:

Post a Comment