Wednesday, October 8, 2014

Ekki gera ekki neittAuglýsingaherferð Krabbameinsfélagsins hefur líklega ekki farið fram hjá neinum, en þar er leitað að stúlkum sem ekki hafa farið í leghálsskoðun.

Sjálf hef ég verið nokkuð samviskusöm að mæta í skoðanir þegar kallið kemur. Það er líka eins gott.


Haustið 2012 fór ég í hefðbundna skoðun og fékk í framhaldi bréf þess efnis að greinst hefðu vægar frumubreytingar.

Ég verð að viðurkenna að í augnablik fór tilveran á hvolf - en ég á það til að "láta vindinn ráða för" hjá hugsunum mínum og þá semja heilu sápuóperurnar á örfáum mínútum. Já, ég eiginlega bara afskrifaði mig. Fólkið mitt og sérfræðingar báðu mig lengstra orða að róa mig í það minnsta um 90%, þar sem vægar breytingar sem þessar gengu oftar en ekki sjálfkrafa til baka. 

Eftir endurmat nokkrum mánuðum síðar kom þó í ljós að breytingarnar voru enn til staðar og því keiluskurður nauðsynlegur. Aftur fór sápuóperugerðin í fluggír. Kæmist fyrir þetta? Gæti ég átt fleiri börn? Myndi ég yfirhöfuð bara vakna aftur? 

Skurðlæknirinn kom mér aftur niður á jörðina. Þessi aðgerð væri ekkert mál - allar líkur væru á því að eftir hana væri vandamálið úr sögunni, barneignir yrðu venjulega ekki vesen og jú, ég myndi vakna hressari sem aldrei fyrr. 

Allt þetta stóð heima. Ég vaknaði "fresh-fresh" og okkur að óvörum plantaði litli laumufarþeginn sér innra með mér aðeins nokkrum vikum síðar. 

Nú, rúmu ári síðar fór ég í mína fyrstu skoðun eftir aðgerð. Bréfið sem beið mín í forstofunni á mánudaginn var því afar kærkomið. 


Hæ hó jibbí jei! Emil samfagnaði með því að snúa sér í fyrsta skipti á magann. Það sem hann var hissa af afreki sínu. Og montinn!
Elsku þið allar. Ekki gera ekki neitt. 

Ef þið eruð ekki búnar að fara, pantið þá tíma strax á morgun - en hér er að finna allar upplýsingar. 

Þetta er ekkert mál. 

Það getur hins vegar orðið að máli að fara ekki. 

Tjobb, tjobb. 

No comments:

Post a Comment