Monday, January 13, 2014

Stefni á bumbu-bikiniform í sumar





Enginn vakandi á heimilinu nema ég og eftirlegu jólastjarna í glugga. Að sjálfsögðu ekki, enda nótt. Það virðist mig bara ekkert varða um. Þetta er tíminn sem ég gefst upp og fer fram. Borða í leiðinni og svona. 

Umhumm, einmitt. Borða. Las einhvern pistil í dag um að nú væri rétti tíminn til þess að koma sér í bikiniform - bar ekki seinna vænna. Ekki er þverfótað fyrir slíkum færslum, enda árstími fagurra fyrirheita runninn upp. Stöðufærslur um vítamíninntöku, lífræna tómata og kílómetraafrek á hlaupabretti hvert sem litið er.

Staldraði þó aðeins við greinina. Við hana var mynd af einstaklega grannri konu, rass og brjóstalausri. Meira svona eins og fermingarstrákur. Bikiniformið 2014. Það er einmitt það. Er fallegt að vera ekki með neitt hold utan á sér? Nei, nú spyr ég bara eins og fávís kona.

Eins og oft áður mun ég synda á móti straumnum að þessu sinni. Á meðan landinn keppist við að komast niður í sína eigin fæðingarþyngd safna ég bumbu. Risastórri. Stefni á að vera í mínu besta bikiniform í kringum 21. júní. Er einhver keppni við hæfi í gangi?

No comments:

Post a Comment