Af mínum þremur er millistykkið bílveikt. Það hefur verið eins og við manninn mælt að Bríetarbarninu virðist meinilla við Djúpavogssvæðið en hún byrjar undantekningarlítið að æla þar á suðurleiðinni. Fyrir utan almennt umstang, fataskipti og ælupoka sárvorkennir maður henni svo í þessu leiðindarástandi og hálf veigrar sér við að fara með hana í langferðir.
Við vorum búin að prófa allt. Bílveikistöflur, jarðtengingu og láta hana sitja framí með opinn glugga. Mamma þóttist luma á "óhefðbundnum lækningum" eins og að láta hana taka eina skeið af hóstasaft áður en lagt væri íann. Einhverju sinni var ég stödd í Lyfju í Reykjavík og bað um bílveikistöflu. Konan sem afgreiddi mig stóð fastar á því en fótum sínum að hún mætti ekki afgreiða slíkt fyrir svo ung börn. Bauð mér hinsvegar meðgöngusleikjó í staðinn! Út fórum við mæðgur með sleikipinna í öllum regnboganslitum en allt kom fyrir ekki!
Ég var hætt að taka við almennun töfraráðum frá fólki því það skipti engu máli hvað gert var. Ég skellti því í fyrstu skollaeyrunum við þegar vinkona mín vildi lána mér armbönd sem strákurinn hennar hafði notað með góðum árangri við bílveiki. Umhumm, einmitt. Armbönd. Gat ég ekki alveg eins sett á hana eyrnalokka, hvolft svo tómum kaffibolla yfir hausinn á henni, borið kanil á handarbökin á henni og endað með því að láta hana hoppa þrisvar á vinstri fæti, rangsælis?
Armböndin sem um ræðir líta verulega sakleysislega út, sirka tveggja sentimetra breið teygja með lítilli plastkúlu sem þrýstir á úlnliðinn að innanverðu. Galdurinn er sá að kúlann á að sitja á jafnvægispunkti sem fríkar út í bílferðum og veldur ógleði.
Ég lét tilleiðast og prófaði. Fyrst bara þegar við fórum á Stöðvarfjörð sem er ekki nema 40 mínútna keyrsla. Bríet lenti sæl og glöð hjá ömmu Jónu, venjuleg á litinn en ekki ljósgræn. Ég var handviss um að tilviljun væri að ræða, trú mín var ekki meiri.
En, viti menn. Bríetarbarnið hefur nú í sumar farið tæplega tvo hringi kringum landið án þess að finna fyrir bílveiki. Ég er því miður ekki með böndin við höndina til þess að mynda þau en þessi töfralausn á að vera til í næsta apoteki á mjög viðráðanlegu verði.
Þið sem hafið átt við sama vanda að etja og ég, prófið - ég skora á ykkur, þó svo þetta hljómi eins og Baggalútsfrétt!
Bílveikisfrí Bríet |
No comments:
Post a Comment