Tuesday, July 16, 2013

Erfiðir dagar - ár hvert



Ég er algert síli þessa dagana. "Síli" er orð sem Hrafnhildur vinkona kenndi mér fyrir margt löngu og er svo ótrúlega lýsandi á ástandi þegar maður píííínulítill í sér og aumur. Í ofanálag eru dagarnir kringum 15. júlí mér alltaf mjög erfiðir ár hvert.

Ég get alveg feikað sílamennsku mína fyrir almenningi en krakkarnir mínir ryksuga allt svona upp eins og hálaunaðir ræstitæknar.

Ég fór með þau öll á Stöðvarfjörð um helgina, á bæjarhátíðina Pólar - sem var frábær. Eins og yfirleitt á þessum árstíma bárust örlög föður míns til tals innan fjölskyldunnar. Aðstæður í litla bænum voru svipaðar og þessa helgi fyrir 13 árum, líf, fjör og gott veður. Minntu mig óþægilega mikið á erfiða tíma. Ég hef oft rætt þetta allt saman við Almar Blæ og nú þótti þeim litlu mál til komið að fá að vita sitt...

Krakkar: "Mamma, finnst þér ekki leiðinlegt að eiga engan pabba?"

Ég: "Jú, mér finnst það mjög leiðinlegt?"

Krakkar: "Hvað var afi gamall þegar slysið varð?"

Ég: "Hann var 62 ára."

Krakkar: "Vá, svona ungur! Hvað varst þú þá gömul? Og brósi?"

Ég: "Ég var 24 ára og brósi 4 ára - ég er bara 20 árum eldri en hann."

Krakkar: "Heldur þú þá að ef að afi hefði ekki dottið í stiganum, væri hann þá kannski ennþá lifandi?"

Ég: "Já, örugglega"

Almar Blær: "Ég spái oft í það hvernig það væri ef við gætum bara farið á Stöddann og heimsótt ömmu Jónu og afa Steindór líka"

Helgin 14.-16. júlí árið 2000 er greipt í huga mér og "ef-in" eru mörg. Það eru sjálfsagt skiptar skoðanir um hvað er við hæfi að skrifa á opnum vef og hvað ekki. Viðkvæmir eru því hvattir til þess að skipta yfir á Smartland eða Baggalút núna og lesa bara frekar færslu morgundagsins sem verður jafnvel um skilyrðislausa ást mína á IKEA. Það hefur alltaf hjálpað mér að skrifa mig gegnum lífið og sérstaklega þegar ég er ekki stærri eða sterkari en fyrirburi í hitakassa...

______________

Ég var komin austur með Almar Blæ í frí. Á föstudagskvöldið var Jón Gnarr með sýningu sína Ég var einu sinni nörd í íþróttahúsinu. Ég ætaði að fara en Almar að vera heima hjá ömmu og afa. Hann var þó óskaplega súr með stöðu sína og grenjaði eins og stunginn grís þegar ég fór.

Gnarrinn stóð svo sannarlega fyrir sínu og allir skemmtu sér konunglega. Þegar afmælisbrandarinn hans um vörutalningadaginn 2. janúar - versta dag ársins til þess að eiga afmæli kom - litu allir bæjarbúar á mig og brostu, en við Jón deilum afmælisdeginum. Í pínulitlu þorpi þekkja allir alla og allir standa saman.

Heima hjá ömmu og afa fengu málin einnig farsælan endi, Almar Blær og afi skemmtu sér yfir glænýju spili, Bindu kúnni, sem sá litli hafði borið með sér úr höfuðstaðnum...

Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur. Pabbi undirbjó sig fyrir að selja föndrið sitt á útimarkaðnum - en hann skar út undraverða hluti úr hreindýrshornum, lundanefjum og fiskibeinum - maður sem hafði hendur á stærð við bjarnarhramma!

Mamma fór í búð til þess að kaupa í kvöldmatinn, en við áttum von á gestum frá Reyðarfirði. Pabbi kemur inn með látum á neðri hæðinni, skellir hurðum og kallar "hæ" eins og vanalega. Skömmu síðar heyri ég dynk sem ég mun aldrei gleyma meðan ég lifi. Ég hljóp af stað á hljóðið og opnaði hurðina niður í kjallara. Það sem blasti við mér á ekki nokkur ætti að þurfa að upplifa. Pabbi minn lá hreyfinalaus á gólfinu með fæturna upp í stigann. Blóð lak út úr öllum vitum - alveg eins og atriði í lögguþætti á Stöð 2!

Krakkar: "Mamma. Hvað gerðir þú?"

Ég: "Ég hljóp upp og tók brósa frá, en ég vildi ekki að hann myndi sjá afa svona. Hringdi svo í lögguna og sjúkrabíl - já og Sissó bróðir og sagði honum að koma."

Krakkar: "En amma, hvað gerði amma?"

Ég: "Ég sá hvað ömmu leið illa og bað hana þess vegna ekki að vera þarna meðan sjúkraflutningamennirnir voru að taka afa í sjúkrabílinn."

Krakkar: "En, leið þér ekki illa mamma - hvernig gast þú verið þarna og séð afa svona slasaðann?"
________________

Ég hef einmitt oft hugsað akkúrat þetta. Merkilegt hvernig maður getur djöbblast í gegnum alla skapaða hluti þegar reynir á - eitthvað sem maður gæti ekki ímyndað sér.

Hann var fluttur suður og fór í aðgerð á Borgarspítalnum um nóttina. Við fengum strax afar raunhæfar fréttir með útlistun á ástandinu. Hann var marg-höfuðkúpubrotinn og blætt hafði út og suður um heilann. Læknarnir bjuggust síður við að hann vaknaði og ef svo væri þá mættum við búast við allt öðrum einstakling til baka, en skemmdirnar voru mestar á þeim svæðum sem stjórna persónuleikanum. Við gátum því frá fyrstu mínútu búið okkur undir það versta.

Fréttirnar flugu eins og eldur í sinu, bæjarbúar fylgdust með með skelfingu. Í pínulitlu þorpi þekkja allir alla og allir standa saman.

Við fórum suður tveimur dögum seinna. Við sátum yfir honum alla daga þar til 10. ágúst að hann gafst upp og dó. Hann komst aldrei til meðvitundar, þó svo ég hafi alltaf trúað því að hann hafi vitað af mér hjá sér.

Á þessum stutta tíma breyttist pabbi minn úr stórum og stæðilegum manni í beinagrind með sundurskorið höfuð. Ég var líklega í fimm ár að skola þá minningu út úr huga mér og hugsa frekar um hann eins og hann var. Almar Blær teiknaði heldur ekkert annað en fólk á sjúkrahúsum í marga mánuði og allir Playmoleikir einskorðuðust við sjúklinga með reifað höfuð.

Það er eitt sem hefur verið okkur ráðgáta. "Öndin" úr nýja spilinu sem þeir félagar spiluðu kvöldið fyrir slysið hefur aldrei komið í leitirnar. Við höfum alltaf verið viss um að afi er með hana hjá sér - við höfum enga aðra skýringu. Nema, ef, ef, ef, ef...

Síðan eru liðin mörg ár. Ég er ekki endilega sammála því að tíminn lækni sár, maður lærir frekar að lifa með því sem fyrir mann er lagt. Hugga mig alltaf við - fyrst þetta þurfti að gerast - að ég veit að pabbi hefði frekar viljað fara en að vakna sem hálfur maður. Það er þó merkilegt hvað hugurinn er skilyrtur, en þessir dagar ársins koma alltaf róti á huga minn. Alltaf.

Á morgun, eitthvað skemmtilegt. Til dæmis IKEA

4 comments:

  1. Elskuleg ég sit hérna með tárin í augunum. Samhryggist þér. Kossar og knús á þig Krissulingur :*
    Hann fylgist samt pottþétt með litlu dúllunni sinni og afabörnum að rifna úr stolti :*

    ReplyDelete
  2. Kristín HávarðsdóttirJuly 16, 2013 at 3:38 PM

    Já Kristborg mín þetta var sannarlega skelfilegur tími fyrir ykkur, ég man það vel hvað maður var óttaslegin fyrir ykkar hönd.. Steindór var yndislegur maður og reyndist manni vel í salthúsinu í "gamla daga"...
    Missir af honum..
    Samhryggist ykkur öllum
    Stína Sv í Silfurtúni

    ReplyDelete
  3. Mikið man èg þennan dag og hvað pabbi þinn var hress og kátur þar sem hann var að selja munina sína. Svona eins og í Salthúsinu þegar hann var spilandi kátur og allir dagar þar voru svo skemmtilegir. Mikið upplifði maður samhuginn í litla þorpinu okkar og hvað var erfitt að syngja fyrir hann því öll mín pabbasorg ýfðist upp við það. Risaknús til þín og þinna.

    Solla Fr.

    ReplyDelete
  4. Það er svo skrtítið að í innstu rótum er söknuðurinn svo mikið sár. Þó maður beri það ekki utan á sér dags daglega.
    Það líður ekki sá dagur að ég sakni ekki foreldra minna. Ekki einn einasti dagur......

    Kv,
    fyrrverandi á 23c :)

    ReplyDelete