Saturday, April 27, 2013

Af ýmsum óþolum

Ég er blessunarlega ekki með fæðuóþol. Ég er hinsvegar með alvarlegt óþol fyrir loftljósum, gardínum og sokkum. Loftljós þykja mér bæði ljót og leiðinleg, gardínur get ég ekki í mínum húsum nema þá eitthvað afskaplega minimalískt og þannig úr garði gerðar að þær geti "horfið sporlaust" annað hvort upp eða til hliðar. Sokkar hafa mér alltaf þótt verkfæri djöfulsins og er mér ómögulegt að skilja fólk sem endist í þessu allan daginn!

Auðvitað eru til fallega hönnuð loftljós, ég viðurkenni það. Það er birtan af þeim sem fer óskaplega í taugarnar á mér, langar ekki að líða eins og á skurðstofu á mínu eigin heimili. Í stað almennrar loftljósanotkunar er ég með lampa og kósýljós í hverju horni. Elskulegur sambýlismaður minn var töluvert lengi að átta sig og hvað þá skilja þessa takmörkun mína en virðir þetta þó við mig. Það er leikur að læra. Það er þó eitthvað við "rússann" sem hefur alltaf heillað mig.



Það sem mér finnast ljósaperur fallegar í einfaldleika sínum. Fyrri myndina fann ég á Pinterest en neðri myndin er verk sem unnið var í Fish Factory á Stöðvarfirði. Einhverntíman ætla ég að hanna mér mitt eigið rússneska listaverk. Jei.

Gardínur. Ég bara get þær mjög illa. Einstaklega óspennandi húsbúnaður. Veit ekki hvað það er. Finnst eitthvað svo hreint og fallegt við glugga sem mig langar ekki að menga með einhverjum lufsum. Veit alveg í skynsemi minni að það er ekki kannski ekki "æskilegt" að vera í gardínulausu húsi, þó svo ég geri það yfirleitt. Mér bara gæti ekki verið meira sama þó svo fólk horfi inn til mín ef það hefur gaman af því. Þess utan elska ég stóra glugga og langar mest að hafa þá út um allt frá lofti niður í gólf.






Get ómögulega lagt það á ykkur svona á kjördag að fara út í díteila á ást minni á funkis-byggingarstílum. Það væri of mikið á ykkur lagt svona með því að tryggja framtíð þjóðarinnar. Seinna. En, það sem mér finnst hann fallegur. Gluggarnir maður lifandi. Stórir gluggar gefa svo mikið frelsi. Sérstaklega ef útsýnið er fallegt. Mitt væri staðsett við sjó. Er farin að hallast að því að ég hafi verið gullfiskur í fyrra lífi!




Sokkar. Þeir finnst mér algerlega af hinu illa. Það er svo einfalt. Verkfæri djöfulsins jafnvel. Oj barasta. Á ekki einu sinni venjulega sokka, bara íþrótta- og ullarsokka. Það sem ég skil lítil börn vel að toga af sér sokka um leið og færi gefst og reyna einnig að toga sig úr sokkabuxum. Kvelst af samúð með þeim þegar foreldrarnir troða þeim jafnharðan í. Æjæjæj.

Hef alltaf verið svona. Anda líklega með tánum. Fæ innilokunarkennd í sokkum- já og jarðgöngum undir sjó. Hrollur.


Engin sokkamynd takk!

Gleðilegan kjördag, njótið þess að nýta rétt ykkar í dag! Áfram Ísland - stórasta land í heimi!




No comments:

Post a Comment