Tuesday, December 30, 2014

Fögur fyrirheit

Enn eitt árið liðið. Finnst með algerum ólíkindum hvað tíminn er fljótur að líða. Alltaf aðeins fljótari í ár en í fyrra, svona eins og tapist alltaf mánuður aftan af. 


Hápunkturinn var að sjálfsögðu þegar Emil okkar leit dagsins ljós 5. júní síðastliðinn. Árið hefur verið afskaplega hamingjuríkt en erfitt í senn þar sem litli krútt-kúturinn hefur látið hafa ansi mikið fyrir sér. Færslan Vanhæf móðir var lesin í tugþúsunda tali og ansi margir könnuðust við aðstæður sem okkar. Enn höfum við ekki náð svefninum á rétt ról þrátt fyrir allar heimsins ráðleggingar og tilfæringar, en það gerist vonandi snemma á næsta ári. 

En. Verð ég ekki að greina frá fögru fyrirheitunum? Er það ekki bara?


Þar sem við elsti sonur sátum og tróðum í okkur skötu á Þorláksmessu bárust umræður að heilsu. Þyngd. Ofþyngd. Vanþyngd. Er það orð kannski ekki til? 

Allavega. Til þess að gera langa sögu afar stutta komust við að því, að eins og staðan er í dag, er hann eins þungur og ég á að vera og ég eins þung og hann á að vera. Þarna á milli er sirka 13 kílóa skekkja. Hann of léttur, ég of þung. 

Þetta ætlum við okkur að rétta af á nýju ári. Átakið Mæðgin svissa á þyng hefst formlega 3. janúar næstkomandi. Þann 1. júní  munum við taka stöðuna og sjá hvort okkar hefur þokast lengra í rétta átt. 

Skemmst er frá því að segja að hann hefur enga trú á mér. Enga einustu. 

Ég ætla hins vegar að mala hann. Verð samt að fá einhverjar hugmyndir að verðlaunum. Mega vera sniðin fyrir mig þar sem hann á ekki sjens. Sorrý.

Gleðilegt ár öll sömul og takk svo mikið fyrir gamla. 


No comments:

Post a Comment