Ég sagði frá markmiði mínu fyrir árið 2015 í þessari færslu hér á gamlársdag. Ansi fögur fyrirheit.
Borða alltaf of mikið, treð öllu í andlitið á mér án þess að hugsa. Er þó enginn nammigrís, get átt alltkonar góss upp í skáp án þess það trufli mig nokkurn skapaðan hlut. En, brauð, ostar, salat og bara matur, óboj.
Ég tók því pólítíska ákvörðun eftir rökræður við sjálfa mig - að prófa að taka rækilega til í mataræðinu mínu á nýju ári. Hef oft reynt það sjálf og slengt fram fullyrðingum á borð við að nú sé ég hætt að borða sykur. Eða þá brauð. Já steinhætt.
Það hefur yfirleitt gengið illa. Bæði vegna þess að ég er ekki ofhlaðin sjálfsaga auk þess sem ég er 100% steingeit og þarf plan. Plön og ToDo listar, það er mitt.
Hin nýja heilaga biblía.
Þess vegna ákvað ég að prófa 30 daga mataræðishreinsunina frá Davíð Kristinssyni. Skothelt plan.
Í afar stuttu máli snýst málið um að yfir 30 daga tímabil lætur maður eftirfarandi ekki inn fyrir sínar varir;
Áfengi
Koffín
Mjólkurvörur
Sykur
Svínakjöt
Glútein og ger
Pakkamat og unna matvöru
Aha. Þetta er rosalegur listi og ég spurði mig hvað í dauðanum ég mætti þá borða. Ekkert? Jú, maður má nefnilega borða helling. Bókin er snilldarlega uppsett, inniheldur bæði fróðleik um mataræðið á mannamáli, matseðla fyrir mánuðinn (þrennskonar) og uppskrifir af öllu því sem á að elda og borða yfir tímabilið. Uppskriftirnar eru mjög góðar og flestar bara venjulegur, hollur heimilismatur.
Frækex í undirbúningi.
Með þessu móti er þetta "ekkert mál". Eða þið vitið, þannig. Fyrir mig skiptir miklu máli að ég geti farið algerlega eftir einhverju, en sé ekki sjálf að reyna að finna upp hjólið. Sjálf er ég aðeins búin með þrjá daga og líður vel. Það eina sem ég finn virkilega fyrir er kaffileysið.
Að þessum 30 dögunum liðnum bætir maður smá saman inn tegundum af bannlistanum (ef vill). Með því móti er gerlegt að átta sig á því um hvort fæðuóþol af einhverju tagi sé að ræða. Sumir kjósa í framhaldinu að losa sig alveg við sykur, glútein, kaffi eða hvað annað. Aðrir ekki.
Er líklega búin að borða fleiri egg þessa þrjá daga en allt mitt líf. Hér má sjá hádegismat gærdagsins.
Það sem hefur komið mér allra mest á óvart þessa þrjá daga er hve södd ég er allan daginn, enda borða fimm sinnum á dag. Hef auk þess sjaldan brasað eins mikið í eldhúsinu og þessa daga.
Ekki ber þó að fagna fyrr en að leikslokum. Fyrstu lotu lýkur ekki fyrr en eftir 27 daga og þá met ég stöðuna og það hvað gera skal í framhaldinu. Lofa að leyfa ykkur að fylgjast með annað slagið, svona sérstaklega fyrir þau ykkar sem eruð að íhuga slíka hreinsun.
Endilega lækið þessa hér og fylgist með.
No comments:
Post a Comment