Tuesday, February 3, 2015

Morðtilraun móður minnar


Nú verður sögð dagsönn saga af móður minni. Ekki einu sinni ýkt. 

Mamma hefur verið starfandi í kirkjukórnum á Stöðvarfirði síðan ég man eftir mér. Mínar bestu stundir voru þegar ég fór með foreldrum mínum á æfingu sem stundum voru haldnar á bókasafninu. Lá á gólfinu umkringd bókum. Hlustaði á sálmasöng, þefaði af bókunum og skoðaði. Sálmar og bækur. Besta blandan. Skýrir líklega af hverju ég er 200 ára gömul inn í mér. 

Mamma hefur verið með marga kórstjóra gegnum tíðina. Líkað afar vel við þá alla - eins og flesta í sínu lífi. Meira að segja þann ungverska sem rak mig úr píanókennslunni af því ég vildi bara spila eftir eyranu, en ekki læra nótur. 

Núverandi kórstjóri er einnig í miklum metum hjá henni. Sú hefð hefur skapast að kórmeðlimir skiptast á að leggja til bakkelsi á æfingar. Móðir mín átti leik fyrir áramót. Skundaði sæl með sig og nýbakaða djöflatertu á æfingu, enda orðin hundleið á síendurteknum hrákökum. 

Í hléinu gæddi kórinn sig á góðgætinu. Að því loknu röltir kórstjórinn til móður og segir salírólegur; "Þú vilt kannski fá merkið þitt til baka?" 

Jóna hafði sumsé hrært köku djöfulsins í Kitchen Aid vélinni sinni. Ekki tekið eftir því að aðalsmerki hennar, stálhringur sem er fjórir sentimetrar í þvermál, losnaði og hafnaði í hrærunni. Bakaði það með öllu saman og smurði kremi. Merkið hafnaði í munni kórstjórans sem var heppinn að kæfa sig ekki eða þá allavega brjóta í sér tönn. 

Jóna - 12 stig. 

No comments:

Post a Comment