Wednesday, November 19, 2014

22 ára skróp

Þegar ég var barn gekk ég með gleraugu. Eftir að hafa rýnt í bókstafi og reynt að grípa í vængi á þrívíddarflugum var niðurstaðan sú að ég var með töluvert mikla sjónskekkju, þá sex ára gömul.

Þessi stórkostlegu gleraugu valdi móðir mín á mig. Hún hefur varla fengið mæðraverðlaunin það árið. 


Þegar ég svo, tíu árum síðar, fór á heimavist Alþýðuskólans á Eiðum "steingleymdi" ég gleraugunum heima. Obbosí. Datt einfaldlega ekki í hug að hefja nýtt líf utan heimahagana með þessi ósköp framan í mér. 

Hvað sagði mamma? Nú ekkert. Vissi að það þýddi ekki nokkrun skapaðan hlut.

Svo leið og beið. Gleraugnaleysið slapp fyrir horn. 

Síðari ár hef ég þó fundið fyrir mikilli þreytu við lestur, sem og vinnuna mína, sem að mestu fer fram á tölvu. Er búin að humma það fram af mér lemgi að fara til augnlæknis. Hvað átti ég að segja? "Hæ, ég átti að koma fyrir 22 árum síðan."

Já. Það, og nákvæmlega það, muldraði ég þegar ég settist fyrir framan gamla auglækninn minn á dögunum. 

Eftir að hafa á ný, rýnt í bókstafi (fékk ekki að klípa fluguna), var niðurstaðan að sjálfsögðu;
lestrar- og vinnugleraugu.


Með reseft upp á vasann hélt ég í helgarferð í höfuðstað norðurlands. Dóttir mín bað mig vinsamlegast og lengstra orða að fá mér bara linsur. 

Hún, sem og afar smekkleg vinkona, komu með mér í gleraugnaleiðangurinn. Bríet mildaðist og fannst ég bara orðin nokkuð fín í restina. Fengum í heimlán þessi gasalega fínu DOLCE&GABBANA glerugu og tvenn til viðbótar. Þessi urðu að lokum fyrir valinu. 

Munurinn, drottinn minn dýri! Nú les ég eins og vindurinn - langar helst að lesa allan daginn. 

Gleraugun voru prufukeyrð með fyrsta bindi Dalalífs eftir Guðrúnu frá Lundi. Ó, hvað konan hefur verið mikll ritsnillingur og óborganlega fyndin. 

Læka þessa?

No comments:

Post a Comment