Friday, November 14, 2014

Föstudagsfrumsýning


Það er spari-föstudagur í dag - innihélt enn eina frumsýningu frumburðarins á leiksviðinu. 

Frumsýning frumburðar - fiðrildi í maga. Alltaf, jafnvel fleiri en ef ég stæði sjálf á sviðinu. 

Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýndi í kvöld verkið Þið munið hann Jörund í leikstjórn Halldóru Malinar Pétursdóttur. Almar Blær fór með hlutverk Dala-Völu auk þess sem hann sat í stól aðstoðarleikstjóra. 

Er þetta í þriðja sinn sem hann tekur tekur þátt í uppfærslum félagsins og hafa meðlimir þess tekið honum opnum örmum og reynst honum ómetanlega. Þau til að mynda völdu hann í sumar sem sinn fulltrúa á vikulangt námskeið sem haldið var af Bandalagi íslenskra leikara. Nú veita þau honum þetta risastóra lærdómstækifæri, að vera leikstjóra til halds og trausts. Þau vita hvert hann stefnir og vilja styðja hann með ráðum og dáð. 

Ég hvet ykkur öll sem getið að sjá sýninguna, en aðalleikararnir tveir, þeir Stefán Bogi Sveinsson og Einar Sveinn Friðriksson fara á kostum í hlutverkum sínum sem Jörundur hundadagakonunur og Charlie. Já, sem og allir hinir. 

Ég er pínuponsu hlutdræg og þykir minn fugl að sjálfsögðu langsamlega fallegastur í hlutverki hinnar ungu viðkvæmu móður. 

Þar sem ég kom að gerð leikskrár sýningarinnar fékk ég að sitja tvær æfingar á ferlinu og kynnast því hve samheldinn hópurinn er. Þegar ég svo hvíslaði að mínum manni í kveðjuskyni í kvöld og bað hann um að ganga hægt um gleðinnar dyr í frumsýnigargleðinni sagði hann; "Já mamma mín, ég er þarna með fjölskyldunni minni, þannig að þú þarft ekki að hafa nokkrar áhyggjur af mér."

Fallegt. En nú hætti ég, áður en allir fara að grenja. P.s. Áhorfendur voru beðnir um að taka ekki myndir á sýningunni og ég virti það. Svona næstum. Stalst til þess að taka þessar á símann minn í uppklappinu - gasalega yfirlýstar og fínar. 

No comments:

Post a Comment