Friday, November 7, 2014

Föstudags...tilraunin

Felst í því að flytja að heiman. 

Eins og fram hefur komið hafa ýmsar spekúalasjónir verið á lofti um óværð Emils. 

Síðustu helgi vörðum við fjölskyldan á Akureyri þar sem margt var brallað. Finnst bærinn svo notarlegur, líður alltaf pínulítið eins og í útlöndum. 

Prógrammið var töluvert - bíó, skautar, Hamborgarafabrikan og Lindex að sjálfsögðu. Það sem uppúr stóð þó var þó að Emil var eins og ljós. Svaf eins og lumma og var mun minna pirraður en flesta daga. 

Í kjölfarið voru settar fram nýjar kenningar. Auðvitað væri orkuójafnvægi í íbúðinni, sveppir, nú eða hreinlega illir andar.

Við dveljum því hjá ömmu Jónu á Eskifirði um helgina, í tilraunaskyni. Ef sá stutti verður vær og góður þarf að grípa til aðgerða í B10 - með því að endurstilla rafmagn, steikja sveppi eða særa út illa anda. 


Myndavélin gleymdist og því þarf að notast við símann. Kannski þjáist Emil bara af innilokunarkennd heima í litlu íbúðinni okkar. Hér má sjá hann í miklu stuði, þjótandi út um allt í göngugrindinni, að skoða allt fína dótið hennar ömmu Jónu. 


Gardínur. Það er fyrirbæri sem Emil hefur aldrei séð, enda móðir hans með krónískt ofnæmi fyrir slíku. Vá hvað þær eru spennandi og bragðgóðar, gardínurnar hennar ömmu. Meðan laufin sofa liggja spaðarnir andvaka. Emil sefur best með bleiu yfir andlitinu. 

Ehh, já. Núna, þegar klukkan er rúmlega tíu, höfum við misst trú á allar kenningar. Teljum barnið einungis mjög klárt að spila með okkur - en það hefur afrekað að öskra sig tvisvar fram úr svefnherberginu síðan klukkan átta. Gráta eins og það sé jafnvel að missa útlim. Þegar fram er komið er hinsvegar partýstuð og litla andlitið brosir hringinn, sigri hrósandi. 

And the winner is...   

No comments:

Post a Comment