Saturday, March 23, 2013

Alþjóðlegi 20.000 kaloríudagurinn er í dag

Laugardagur og fullt af fólki í mat í 403. Ræð mér ekki fyrir kæti. Best í heimi. Matseðill kvöldsins minnir á vorið en hann hljómar nokkurnvegin svona:
  • Beikonvafðar döðlur í forrétt
  • Heimagerðir Krissuborgarar í aðalrétt. Bornir fram með sultuðum lauk, hvítlauksmarineruðum sveppum, frönskum, grænmeti og sósum
  • Frönsk súkkulaðikaka 
  • Hvítur rússi fyrir þá sem vilja í eftirdrykk
Ætlaði af þessu tilefni að kenna ykkur að sulta lauk (bragðast mun betur en það hljómar) með borgurum, en þar sem það greip mig eitthvað æði í eldhúsinu verður færslan líklega eitthvað lengri.


Ég er steinhætt að kaupa tilbúna hamborgara, geri þá alltaf sjálf og get ekki einu sinni líkt þeim saman við þá sem til eru í stórmörkuðum. Og nei, það er ekkert einasta vesen. Kaupi brauðin bara stök en í borgurunum sjálfum eru bara nautahakk, salt, pipar og hvítlaukur. Annars má setja hvaða krydd sem er. Set hakkið, pressaðan hvítlauk (góðan slatta) og kryddið í hrærivélina í smá stund, en bara smá stund - annars finnst mér hakkið verða seigt. Stundum sleppi ég því að setja það í vélina og hnoða bara aðeins saman í höndunum. Móta svo vel útilátna borgara og hendi þeim í Gísla sem grillar þá. Einfaldara getur það ekki verið. Alls ekki. 




Ég lærði að meta sultaðan lauk með þessum borgurum síðasta sumar þegar Hrafnhildur, elskuleg vinkona mín, heimsótti mig. Og men, hvað það passar vel saman. Það sem þarf er fullt af rauðlauk (ég ætla að vera með sex lauka í dag af því það eru svo margir í mat), íslenskt smjör, púðursykur og balsamikedik. Líka salt og pipar. Ég bræði smjör í potti og set púðursykur út í og svo edikið.  Betra er að byrja á minni ediki en meira. Salt og pipar. Þegar blandan er farin að sjóða smá set ég laukinn út í - en hann sker ég í sneiðar. Þetta á svo bara að malla á lágum hita í klukkutíma. Ég er ekki með neinar mælieiningar, þetta verður bara að smakkast saman.


 Sveppina steiki ég bara uppúr íslensku smjöri, hvítlauk og maldonsalti. Ummmm...






Beikonvafðar döðlur eru sjúklega góðar og matreiðslan á þeim segir sig sjálf. Já, ég vef döðlum inn í beikon og skelli inn í oft í ca hálftíma...









Tommi töff mjög ánægður með að hafa ísinn fyrir sig

Ég ákvað að fara öruggu leiðina og hafa franska súkkulaðiköku og ís með kaffinu ftir matinn. Hef bakað þessa köku í mörg ár og hún er alltaf jafn góð. Að vísu nánast bara súkkulaði þannig að maður fær sér ekki margar sneiðar, en á eftir mat með góðu kaffi, sjæs!

Franska súkkulaðikakan hennar Birgittu...

Botn:
  • 200 g smjör
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 4 egg
  • 2 dl sykur
  • 1 dl hveiti
Smjörið og súkkulaðið er brætt saman í potti. Eggin og sykurinn þeytt vel saman á meðan. Hveitinu bætt út í eggin og sykurinn og hrært. Súkkulaðinu bætt varlega saman við allt saman. 

Sko. Þetta eru tveir botnar, þ.e. tvær kökur því botnarnir eiga ekki að fara saman. Ég setti kökuna í frekar stórt mót í dag, en setti það ekki allt saman. Bakað á 170 gráðum í hálftíma. 

Krem:
  • 150 g súkkulaði
  • 70 gsmjör
  • 2 msk síróp
Ekki að sé ekki nóg um með botninn sjálfan, þarf varla súkkulaðið - en látum okkur hafa það. Ég hef alltaf tvöfaldað kremið því að það er eiginlega bara nóg á einn botn. Það verður að setja kremið á meðan kakan er enn volg því þannig samlagast það kökunni. Ég kæli hana svo alltaf og tek hana út úr ísskáp svona hálftíma fyrir át. Himneskt að borða með vanilluís (helst heimatilbúnum) en sleppur vel til með rjóma. 



Gott partý batnar enn frekar með einum White Russian. Ó já!

1 comment:

  1. Franska klikkar ekki :) Hef samt komist að því að íslenska suðusúkkulaðið er algjörlega nauðsynlegt...hún er ekki nærri því jafn góð í Danmörku!

    Laukinn verð ég svo að prófa á næstu borgara hér á bæ :)

    Kv. Birgitta

    ReplyDelete