Saturday, March 23, 2013

Línulítið ráð sem getur skipt rosastóru máli

Þegar ég var lítil geymdi mamma tennurnar sem ég missti í tómri barnamatskrukku. Gerber. Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar við fórum til konu einnar í þorpinu sem átti lítinn strák. Hún var svo góð að gefa okkur eina krukku undar bananamauki. Ég man ekki eftir litla stráknum en ég hinsvegar mjög vel eftir því hvernig Gerberbarnið á krukkunni leit út. Klassískt.

Í dag langar mig að segja ykkur frá því hverju sniðugt er að skella í Gerber...


...ekki föllnum tönnum, heldur afgangsmálningu. Hver hefur ekki lent í því að klessa skemmtilegum lit á barnaherbergið eða einhvern stakan vegg í húsinu. Málningadósin klárast næstum og manni dettur ekki í hug að taka pláss í geymslunni undir hana, það er hvort sem er aðeins botnfylli í henni! Í það minnsta hef ég alltaf látið slíkt gossa, án umhugsunar. Ég hef líka lent í því að bölva í hljóði þegar ég rek eitthvað utan í vegginn viku síðar og það myndast ljót rispa. Svo hef ég líka lesið um börn sem krota á veggi á veggi eins og þau séu á himinháu tímakaupi við verknaðinn. Ég þekki ekki svoleiðis sjálf. Bríet teiknaði jú reyndar einu sinni stóran gíraffa í forstofuna daginn eftir að ég málaði hana hvíta. Hún var svo ánægð með listaverkið að ég gat ekki kramið hjarta hennar með því að granda því. Það fékk að standa.

En það er semsagt mjög sniðugt að skafa innan úr dollunni og merkja með dagsetningu og herbergi (ef þið búið í 40 herbergja íbúð og málið allt einu sinni á ári) - en þá er hægt að bjarga því sem bjargað verður. Nema já um stærri listaverk sé að ræða. Happy painting!

No comments:

Post a Comment