Tuesday, November 27, 2012

What Doesn´t Kill You...


Þessi pistill ætti líklega að vera akkúrat mánuði seinna á ferðinni, svona ársuppgjör þið skiljið. Ef tímasetningin er eitthvað að trufla hvet ég ykkur til þess að skottast í bílskúrinn og athuga hvort þar leynist ekki gamalt stjörnuljós frá því í fyrra og láta sem það séu að koma áramót ekki á morgun heldur eftir nokkra. Komið? Ókei…
Eníveis! Þegar ég rak augun í fyrirsögnina „Búið að vera skelfilegt ár“ á mbl þá gat ég ekki annað en skellt upp úr, alein heima. Blikkaði ímyndaða vin minn sem Gísli hvetur mig til þess að rækta sambandið sérstaklega við þessa dagana þar sem ég er svo mikið ein heima. Sem betur fer hringdi mín elskulega vinkona að sunnan á sama tíma þar sem ég sá að Mangi nennti engan vegin að ræða málin…
Við vinkonur, sem eigum afar erfitt með að hafa þessa 700 úldnu kílómetra á milli okkar, hugsum oftar en ekki eins. Já meira að segja mjög oft, botnum líka setningar fyrir hvor aðra og svona…
Sæl‘skan
Veistu, ég fór aðeins út að skokka áðan og þá hugsar maður eitthvað svo mikið. Mér var hugsað til þín og þessa árs, kræst – hvað er að frétta??! Ertu að borga fyrir allar þínar syndir frá því í móðurkviði og kannski að skrifa aflausnir fram í tímann? Það er ekki hægt hvernig árið þitt er búið að vera, það er eiginlega bara fyndið!
Sko, ef við byrjum nú bara fyrir sléttu ári, þá dó bíllinn þinn drottni sínum. Bara fór ekki í gang þegar þú varst að koma úr flugi frá Reykjavík og mín þurfti bara að húkka far niðrá Reyðó – alveg eins og ýlandi dræsan í Stellu í orlofi!Voða, voða lítið að gera fyrir einstæðar mæður!
Svo var það puttinn á jóladag. Að detta á svelli á leið í jólaboð og fara úr lið! Puttinn alveg eins og á Fílamanninum. Spelka og læti, sem týndist nú að vísu mjög fljótlega…
Kærastafíaskóið í upphafi árs. Ég meina, hver hefur eitthvað við kærasta að gera sem er ekki nógu skotinn í manni. Ekki við! Sko mína að skila honum lóðbeint til höfuðborgarinnar aftur!
Fótbrot í júní, mánuður í gipsi!Tékk!
Húsnæðismálið ógurlega sem nú hefur tekið tæpt hálft ár! Að láta selja ofan af sér leiguhúsnæði er ekki góð skemmtun.
Enda svo árið með að vera Dreki – bara sagt upp í vinnunni ossonna! Enda ár Drekans og vinna bara bóla og gersamlega ofmetið fyrirbæri!

Við biluðust úr hlátri þegar hún setti þetta svona upp, ekki hægt annað – enda með alla útlimi í lagi, á heilbrigð og mögnuð börn og komin í húsaskjól.  Já og vinna er eitthvað svo óld, eitthvað svo 2012.  Reyndar er gaman að segja frá því að mér hafa boðist ótrúlega spennandi verkefni úr öllum áttum, hef ekki þurft að lyfta litla fingri varðandi vinnuframtíð mína sjálf. Magnað, datt ekki í hug í mínum villtustu draumum að þetta gengi svona til. Ætla þó að gefa mér tíma fram yfir jól og melta þetta allt saman í bland við rjúpurnar og jólaölið.
Get allavega ekki beðið eftir að takast á við nýtt og stórskemmtilegt ár með frábærum og risastórum áskorunum. Krakkar, verið góð við hvert annað og hrósið náunganum. Það er svo gott!

No comments:

Post a Comment