Friday, November 2, 2012

Holdsveikur dreki


Meistaramánuðurinn minn endaði aldeilis með prompi – en ég var rekin úr vinnunni þriðjudaginn 30. október. Kölluð á fund klukkan níu árdegis inn í hrollkalda tölvustofu og sagt að vegna skipulagsbreytinga væri karfta minna ekki lengur þörf. Þyrfti jafnframt ekki að vinna frestinn og mætti bara fara heim, já bara núna. Alltílæ, bless, bless. Tók því töskuna mína og stimplaði mig út í síðasta skipti eftir tæplega sex ára starf, án þess að skila verkefnunum mínum af mér eða kveðja vinnufélagana! Hugsaði um drekaatriðið í Fóstbræðrum á leið minni út…
Ekki að ég sé sú eina sem hefur verið sagt upp störfum á Íslandi í dag og ég ætla ekki hér að fárast yfir því. Ég þarf heldur ekki að lýsa því fyrir þeim sem hafa reynt að mér líður svolítið eins og ég standi á höndum og reyni þannig að sinna daglegum verkum. Tilveran fer á hvolf þegar svo mikilvægur hornsteinn eins og vinnan er kippt úr undirlaginu…
Ég var reyndar aðeins búin að vera atvinnulaus í 25 mínútur þegar ég fékk símtal þar sem ég var  beðin um að íhuga að taka að mér mjög spennandi tímabundið verkefni. Það var mjög  ljúft og þarft því auðvitað fór sú hugsun strax að flögra um í huga mér að ég sé greinilega ekki eftirsóknarverðari starfskraftur en þetta. Það eru eðlileg viðbrögð hvers manns huga í þessum aðstæðum og því kærkomið að slík viðurkenning bærist svo fljótt!
Ekkert af þessu finnst mér þó eins erfitt og það að enginn vinnufélagi minn hafi heyrt í mér eftir þetta. Bara svona mínútu símtal, rétt til þess að tékka hvernig mér líki að „vera dreki“ og hvernig mér líði. Var í viðtalinu reyndar hvött til þess að nýta mér þjónustu fyrritækisins og tala við hjúkkurnar eða sálfræðing, því þetta væri mikið högg. Það getur vel verið að ég geri það þegar ég næ áttum almennilega. En, fyrst og síðast hefði ég verið þakklátust fyrir að heyra kannski í þeim sem ég hef umgengist átta tíma á dag, sumum í tæp sex ár og öðrum skemur. Ég er ekki að ásaka einn eða neinn, ég hefði kannski brugðist nákvæmlega eins við sjálf – ekki vitað hvað ég ætti að segja eða gera ef ég hefði verið hinumegin borðsins?
Elsku fólk. Mig langar aðallega að vekja máls á þessu ef þið eigið eftir að lenda í þessu sjálf, að einn úr ykkar röðum verði látinn fjúka. Gerið það, hafið samband, ekki vera hrædd við það. Ekki óttast að sá hinn sami vilji ekki fá símhringingu eða knús út í búð. Þetta er svo mikil höfnun eitt og sér að það skiptir öllu máli að vera ekki trítaður eins og holdsveikur dreki í ofanálag…
En, nú er bara að horfa fram á veginn og hefja nýjan kafla. Ef þið vitið um eitthvað smellið og skemmtilegt fyrir mig að gera, þá er ég góður starfskraftur og ógizzlega hress & skemmtileg. Einnig ef þið vitið um einhvern sem ætti það virkilega skilið að láta skrifa um sig ævisögu, þá skal ég rumpa því af á 0,einari!
Gæs, nýtið vonda veðrið til þess að vera sérstaklega góð við hvert annað. Prjóna, horfa á góða mynd og knúsa heimilismeðlimi. Lov&peace!
Tékkið á kollegum mínum hér að neðan;
(Source: youtube.com)

No comments:

Post a Comment