Saturday, January 31, 2015

Samviskulaus sætindi


Bauð upp á dásamlega bláberja-hráköku með kaffinu í dag. Hef aldrei lagt í þessa teguna af "bakstri" en hún er ferlega einföld og góð. Ekki skemmir fyrir að hún inniheldur hvorki sykur né hveiti. 

Bláberjakaka

Botn: 

4 dl möndlur
3 dl döðlur
1/2 tsk sjávarsalt

Setjið allt í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til blandan loðir vel saman. Setjið í form, pressið vel niður á botninn og upp með hliðunum.

Sko. Ég á ekki matvinnsluvél og þjösna aumingja blandaranum mínum í gegnum ýmsar raunir daglega, eins og til dæmis þennan kökubotn. Það gekk upp en matvinnsluvél er klárlega komin á fjárhagsáætlun. 

Fylling: 

3 dl kasjúhnetur (ég átti ekki nógu mikið af þeim og setti valhnetur að hluta)
2 dl kókosolía
1 dl vatn
1 dl hunang
1 tsk vanilluduft (ég átti það ekki og setti smá vanilludropa)
1/2 tsk sjávarsalt
300 g bláber, jarðaber, hindber eða berjabland 

Setjið allt nema berin í matvinnsluvél eða blandara og látið ganga þar til fyllingin verður silkimjúk.  Blandið berjum varlega saman við og hellið öllu á kökubotninn. Látið vera í frysti í a.m.k. átta klukkustundir. Takið út 1-2 tímum áður en hún er borin fram. 

Ég bar kökuna fram alveg frosna í dag og hún er líka voða góð þannig, eins og ískaka. Var ekki síðri þegar hún þiðnaði aðeins - en ég veit ekki hvort það sé endilega nauðsynlegt að taka hana út svo mikið fyrir át. 

Endilega prófið, fljótleg, góð og holl.

1 comment:

  1. Mjög girnilegt, vildi bara benda á að "samviskulaus sætindi" þýðir ekki það sama og "sætindi án samviskubits"... að vera samviskulaus er að vera kaldur og laus við samvisku... ekki samviskubit :)

    ReplyDelete