Sunday, January 18, 2015

Matur



Mataráhugi minn hefur erfst til Þórs, en hann kemur heim með hvern réttinn af fætur öðrum úr listum - allt gert úr pappamassa. Frönsk súkkulaðikaka, plokkfiskur og rúgbrauð. 


Ég er eins langt frá því að vera matvönd og hugsast getur. Ég borða allt. Þó helst ekki heitan, reyktan fisk, en einhverntíman fékk ég ælupest sama dag og ég borðaði hann og tengi það enn saman. 

Annað borða ég. Þorramat, hákarl, skötu, hrogn&lifur, siginn fisk, sushi, rjúpu, gæs, svartfugl, já bara allt. Ég var látin borða allt þegar ég var lítil, ekki með hörku, en þó var aldrei séreldað fyrir mig eða mér sleppt í morgunkornpakkann í kvöldmatartímanum. Fyrir þetta er ég ævarandi þakklát. 

Ég hef reynt það sama við börnin mín og tekist nokkuð vel til. Þau teljast ekki heldur teljast matvönd og borða það sem er í matinn, enda hafa ekki komist upp með neitt annað. Að sjálfsögðu finnst okkur öllum það sem á boðstólum er misgott, en ég hef náð að kenna þeim að borða flest allt. 

Í ljósi þessa hef ég alltaf eldað nokkuð fjölbreyttan mat fyrir okkur smáfjölskylduna þó svo við búum okkur alltaf til pizzu á föstudögum, grillum stundum hamborgara og pylsur eða hendum í pasta eins og gerist og gengur. 

Ég sagði frá því hér að í byrjun janúar ákvað ég að prófa að fara eftir bók Davíðs Kristinssonar, 30 dagar - leið til betra lífs. Ástæðan er margþætt. Mig langar að saxa af mér fæðingaaukakílóin og fá stuðning við að borða enn næringarríkari fæðu sem og að minnka sykur, hveiti og glúteinneyslu.   

Ég er nú á fjórtánda degi af 30 og gengur mjög vel. Ég hef aldrei svindlað á tímabilinu og sé ekki fram á að gera það. Mér líður betur af þessu mataræði líkamlega og andlega. Ég er orkumeiri og blóðsykurinn aldrei í ruglinu og finnst líka frábært að bjóða mér og fjölskyldunni minni upp á hreinan og næringarríkan mat alla dag. 

Það var ekki spurning að minni hálfu að halda þessum lífstíl áfram eftir mánuðinn - kannski taka eitthvað inn aftur, en halda mig mestmegnis á þessari línu. 



Ég hef aldrei keypt eins mikinn mat og þessa dagana!

En. Núna þegar ég er nánast hálfnuð með mánuðinn sé ég ég ekki fram á að hafa tækifæri á að halda áfram að mánuðinum loknum. Af hverju? Jú, ég hef ekki efni á því. Það er rosalega dýrt að kaupa allan þessa hollu matvöru. Hversu sorglegt er að það? Að það sé miklu dýrara að versla hrein og næringarrík matvæli í stað þess að keyra áfram á unni matvöru sem við vitum oft á tíðum ekki hvað inniheldur. 

Bara, til hamingju. "Bland í poka atriðið" úr áramótaskaupinu er ekkert grín heldur heilagur sannleikur.  

Nú langar mig til þess að spyrja ykkur, "kollega" mína sem hafið verið að vinna eftir 30 daga mataræðinu til langframa, hvernig hafið þið náð kostnaðinum niður þannig að þetta sé gerlegt?




No comments:

Post a Comment