Wednesday, February 10, 2016

Dagur níu á Bali - Jól og instant-ákvörðun

Sit úti á svölum og hlusta á þær klikkuðustu þrumur sem ég hef nokkru sinni heyrt. Það eru "jól" á Bali, eða serimonia sem haldin er á 210 daga fresti í landinu.

Ég ætlaði að vera komin út klukkan átta í morgun þegar uppá klætt fólkið gegni í fylkingum hér niður á aðalgötunni. Það tókst ekki þar sem ég á enn erfitt með að sofna á kvöldin, sérstaklega í gær, þar sem ég fékk svo rosalega smellna hugmynd þegar ég var að fara að sofa og setti allt í gang. Greini frá því í lok færslunnar.

Allavega. Ég ákvað að rölta samt í bæinn, þar sem ég ætlaði að fara í ákveðna búð og kaupa mér jógabuxur. Sú búð er nokkuð langt í burtu og ég hef ekki farið þangað ein.


Það voru margir veitingastaðir og verslanir lokaðar í dag. 



Allir í sínu fínasta pússi. 




Skundaði af stað, vopuð götukorti og sjálfstrausti. Myndaði eitthvað á leiðinni, því þó svo ég hefði misst af aðalstuðinu voru spariklæddir balíbúar út um allt.

Dagurinn var mjög heitur og ég var ekkert sérlega viss hvernig ég ætti að komast á áfangastað og hef líklega farið mun lengri leið en nauðsynlegt var. Þegar ég loksins komst á leiðarenda var búið lokuð. Í jólafríi. Andskotinn bara.






Ég trommaði aftur af stað og var mikið að spá í að taka bara leigubíl til baka. Ákvað þó að gera það ekki þar sem ég ætlaði að koma við í stóra markaðnum á leiðinni, sem ég vissi svona 60% hvar var. Þegar ég var búin að ráfa í kringum þann stað sem ég taldi vera réttan í dágóðan tíma gafst ég upp. Tvö núll fyrir mér.

Þarna var ég alveg að fara að grenja. Punkturinn í ferðinni þar sem ég hefði viljað hafa einhvern með mér.

Var þó komin á heimaslóðir og settist inn á Casa Luna og fékk mér hádegismat. Svo heim í sturtu, en ég rétt slapp þangað fyrir klikkaða rigningu og þrumuveður.


Hæ Gosi!









Stelpurokk!


Já. Hugmynd gærkvöldsins sem hamlaði nætursvefni mínum af einskærum æsingi er þessi:

Ég var alltaf með það bak við eyrað að reyna að vera einhvern hluta ferðarinnar á strönd. Það varð þó ekkert af því í skipulagsvinnunni og bókaði ég mig því alla dagana hér í Ubud, en héðan er um klukkutíma akstur á strönd.

Ég fann þó að ég var að svíkja hjarta mitt með því að uppfylla ekki þennan draum sem ég var svo nálægt, en strand-sólsetur á Bali er með því stórfenglegra sem hægt er að upplifa, auk þess sem ég fann að ég þurfti á því að halda að anda að mér víðáttunni og hlaupa út í sjó.

Ég lét því slag standa. Vinkona mín sem hefur verið hér á Bali benti mér á hótel sem er alveg niður við ströndina, miðja vegu frá Ubud og flugvellinum.

Það vildi svo stál-heppilega til að í gær var akkúrat tilboð hjá þeim og ég bókaði mér tvær nætur með morgunmat á þessu frábæra hóteli hér og borga fyrir allt saman rétt rúmar 8000 krónur. Nei krakkar, ég er ekki að djóka.

Þannig að ég á bara eftir að vera morgudaginn hér í Ubud og þá á ég bókað hjá Tarrot-spákonu. Einnig ætla ég á markaðinn sem ég fann ekki í dag og bara njóta síðustu klukkustundanna hér með því frábæra fólki sem ég hef kynnst.

Á föstudaginn færi ég mig yfir á Seminyak-ströndina, busla í sjónum og tek inn sólsetrið. Þar verð ég fram á sunnudag þegar heimferðin tekur við.



Þetta er ekkert svefnpokapláss þó svo að tvær nætur með morgunmat kosti samtals 8000 krónur. 





Þetta verður draumur!

P.s. Talaði klukkutíma við Hrafnhildi vinkonu áðan, en þegar maður verður lítill í sér og bara eins og síli, þá er gott að taka eitt vel valið símtal heim. 




Vinkvennaspjall milli heimsálfa. Á við 30 þerapíutíma. Var að vona að hin fjölbreyttu "för" myndu sjást á þessari mynd - bikinifar, hlírabolafar og töskufar. Kem röndótt heim.


P.s.s. Ég á mitt eigið Hádegisfjall hér í Bali sem sést af svölunum hjá mér. Ég er búin að vera hér í níu daga og var að taka eftir því fyrst núna, en það er yfirleitt falið skýjum, en kemur í ljós eftir mikla rigningu.




P.s.s. Munið snappið: krissa76




No comments:

Post a Comment