Friday, April 5, 2013

Andlitsmaski á fimm krónur beint úr eldhússkápnum!

Ég hef alltaf verið skammarlega löt við að nota hreinsivörur í andlitið á mér, eins og hreinsikrem, andlitsvatn, kornamaska eða rakamaska. Hef einhvernvegin komist upp með vatn og kannski kókosolíu - auk þess sem verðið á þessu dóti er þannig að nánast er nauðsynlegt að selja ættingja sína til þess að eiga fyrir öllu saman!

Tek reyndar tarnir með kornamaska annað slagið en klikka svo á því svo vikum skipti. Kornamaskar fara líka óstjórnlega í taugarnar á mér því mér finnst þeir þurfa að vera "þéttir" - en þá meina ég ógeðslega mörg og lítil korn í þeim, ekki eitt og eitt á stangli eins og svo margir sem ég hef fjárfest í.

Á ráfi mínu á netinu í dag sá ég uppskrift af andlitsmaska sem ég ákvað að prófa.

Matarsódamaski:

  • 1 msk matarsódi
  • Nokkrir dropar vatn (farið mjög hægt í vatnið, en maskinn má hvorki vera of þykkur né þunnur)
  • Innihald úr einni E-vitamínperlu (má sleppa)
  • Einnig má bæta nokkrum dropum af uppáhaldsolíunni

Þetta er eitthvað sem allir eiga heima hjá sér (nema kannski E-vítamínperlurnar) og meðferðin kostar varla meira en fimm krónur!


Olræt. Matarsódi. Ég virðist ekki bara safna kardimommudropum (dóntnóvæ) og niðursoðnum ananas heldur einnig matarsódadollum því ég átti þrjár misfullar. E-vítamínið átti ég ekki en ákvað að sulla smá kókosolíu með.

Setti þessa einu matskeið af sóda í litla skál og bæti vatni í pínulitlum skömmtum útí þar til mér þótti maskinn hæfilegur. Bætti svo við kókosolíu á hnífsoddi og hrærði saman við.


Eftir að hafa þvegið mér í framan eins og lög gerðu ráð fyrir nuddaði ég maskanum framan í mig. Lét svo allt saman bíða á mér í 2-3 mínútur áður en ég skolaði af með vatni.

Æ kid jú not, húðin á mér var eins og barnsrass eftir, mjúk eins og fínasta sikli. Maskinn er sérlega mildur auk þess sem matarsódi er basískur og hentar því vel til að jafna sýrustig húðarinnar, auk þess sem hann stillir af starfsemi fitukirtlanna og losar um dauðar húðfrumur. Þó svo ég virðist safna matarsóda þá er ég ekki svona sérfróð um þá eins og virðist, heldur er þetta fengið héðan.

Hvet ykkur þó til þess að prófa, er búin að hóta Gísla meðferð í kvöld! Góða helgi.



No comments:

Post a Comment