Monday, August 5, 2013

Himneskt kjúklingasalat frá Eldhússögum

Það sem ég var með ferlega góðan mat í gærkvöldi! Kjúklingasalat - og eins og svo oft áður sótti ég grunninn í Eldhússögur.
Ég á samt við töluvert vandamál að stríða þegar kemur að mataruppskriftum. Ég bara get ekki með nokkru móti farið 100% eftir þeim, það virðist bara ekki fræðilegur möguleiki. Allt annað gildir um bakstur, þar fer ég aldrei út af sporinu og fylgi uppskrift í einu og öllu.

Ætlaði svo sannarlega að fjárfesta í avakodo eins og mér var sagt, en þar sem hefði verið hægt að rota mann og annan með þeim eintökum sem til voru í Krónunni í gær þá sleppti ég því. Skipti líka mangói út fyrir gula melónu. 

Eins og segir í uppskriftinni eru lesendur hvattir til þess að sleppa EKKI karmelliseruðu pekanhnetunum og mér datt það ekki í hug - enda sé ég ekki eftir því, þær eru sjúklega góðar á móti reyktu bragði beikonsins. 

Ummm! Nokkrar rötuðu uppí mig á meðan eldamennsku stóð. Ég meina, maður verður nú að smakka þetta allt saman til!

Ég ákvað að gera ekki þá dressingu sem gefin er upp með salatinu, heldur þá sem ég hef alltaf gert með kjúklingasalati. Hún innileldur hunang, dijon-sinnep, olíu, balsamikedik og hvítlauk. Bragðið af henni er dásamlegt tvist af sætu, sterku, súru og hvítlau - og fer einstaklega vel með kjúklingasalati. En, einn daginn á ég eftir að gera þá sem var gefin upp á Eldhússögum. 

Mín dressing er sirka, nokkurnvegin svona (hún er frumsamin og því aðeins til í dassi)
  • Sirka tvær teskeiðar hunang
  • Sirka ein teskeið Dijon-sinnep (passið að það er mjög bragðmikið og dóminerandi)
  • Eitt til tvö hvítlauksrif (fer eftir því hvað ykkur er vel við hvítlauk)
  • Smá sletta af ólifuolíu
  • Balsamikedik 
Byrja á því að hræra saman hunangi, sinnepi og hvítlauk. Set svo smá olíu út í og fylli upp með balsamikediki. Þessa dressingu veður maður bara að smakka til þannig að gullna jafnvægið mitti þessara ólíku bragðtegunda náist. 


Ég væri ekkert að kaupa naan ef ég væri þið

Fyrst ég var fokin í þetta rosalega eldhússtuð lét ég það ekki fréttast að ég færi að kaupa naanbrauð! Nei, mín bara henti í deig frá Eldhússögum og grillaði herlegheitin. Eða nei, Gísli grillaði enda kem ég ekki nálægt þeirri vítisvél eftir að það nánast sprakk í hausinn á mér í fyrra. 

Þarna fór ég að sjálfsögðu alveg eftir uppskrift þar sem um bakstur er að ræða, en penslaði brauðin þó með hvítlauksolíu fyrir grillun. Síðast en ekki síst henti ég í kryddsaltið sem var Maldonsalt og Garam masala - ómissandi þegar brauðið er komið af grillinu. 

Og nei, ég er ekki á prósentum hjá Eldhússögum, finnst þetta bara besta uppskriftasíðan í bænum. Verði ykkur að góðu!


No comments:

Post a Comment