Tuesday, August 6, 2013

Myntugræn bangsapeysa fyrir haustið

Það gránaði í fjöll hér austanlands í fyrrinótt. Tel mig vera eina um það að setja læk á það - þori alls ekki að segja það upphátt í ótta við að verða fyrir aðkasti.

Ég elska haustið, það er algerlega minn uppáhaldstími ársins. Finnst það upphaf ársins, mun frekar en áramótin. Þegar litlir grísir rölta í skólann vopnuð nýju skóladóti. Þegar fer að dimma á kvöldin og ég get kveikt á lömpum og kertum með góðri samvisku. Þegar ég elda haustmat eins og kjötsúpu og hita kakó.

Sjálfa langar mig alltaf sjúklega í skóla á haustin. Er með allskonar dillur í hausnum á mér akkúrat núna. Steingleymi þá með öllu hvað er ömurlegt að læra öll kvöld og allar helgar. Langar til dæmis í sálfræði, fjölskylduráðgjöf, grafíska hönnun, ljósmyndum, vöruhönnun og innanhúsarkitekt. Vill einhver annar en LÍN borga mér fyrir að fara í skóla? Er fyrirmyndarnemandi.

Allavega er ég loksins búin að klára haustbangsapeysuna mína. Ég á við það vandamál að stríða að ég er enga stund að prjóna hvað sem ég vill en stranda svo alltaf á fráganginum og flíkin bíður þolinmóð mánuðum saman þar til ég fæ einhvern til þess að hjálpa mér. Held þó að ég hafi kannski bara náð tökum á þessu af lærimeistara gærdagins. Takk Þórdís!

Ég gæti alveg hugsað mér að sitja á skólabekk í þessari.




No comments:

Post a Comment