Tuesday, March 11, 2014

Beikonsúpan hennar ömmu Jónu

Veikindi hafa herjað á heimasætuna síðustu daga og til þess að takmarka leiðindin sem felast i því að hanga heima hjá heima- en þó útivinnandi móður sinni fékk hún að velja kvöldmatinn í gær. Það var einfalt fyrir hana, en beikonsúpa ömmu Jónu varð fyrir valinu. Yngri kynslóðin hefur sérstakt dálæti á súpunni, sem ég skil afar vel, en hún er alveg ótrúlega góð. Ég hafði aldrei gert hana sjálf og hafði því samband við móður mína suður á fjörðum.

Held að það sé þannig með flestar mæður og ömmur að einstaklega erfitt er að fá frá þeim nákvæmar uppskriftir, það er allt í "dassi" - dass af þessu, slatti af hinu og jafnvel eitthvað sirka líka. Vopnuð slíkum mælieiningum hentum við Bríet í súpuna í gær - og svei mér þá, hún var bara alveg eins og hjá "ömmu".

Hér er þetta sirka, en þið bara verðið að prófa - hún er sérstaklega góð á köldum vetrarkvöldum og jafnvel betri daginn eftir, eins og sannar súpur eru gjarnan.

  • Beikon (ég keypti eitt stórt bréf, en það þarf alveg tvö venjuleg)
  • Sætar kartöflur (ég var með eina frekar stóra)
  • Venjulegar kartöflur (ég var með þrjár frekar stórar)
  • Púrrulaukur 
  • Chilly (hálft)
  • Gular baunir plús safinn af þeim (ég var með eina stóra dós)
  • Niðursoðnir tómatar (ég var með eina dós)
  • Tómatpurré (ég var með stærri dósina)
  • Rjómi (ég var með einn pela)
  • Nautateningur (setti held ég alveg þrjá)
  • Pipar
  • Vatn (nokkur glös)

Ég fékk einnig nokkuð efnislitlar upplýsingar um framkvæmdina, augljóst er að móðir mín er farin að treysta mér vel fyrir húsmóðurhlutverkinu, líklega þá formlega komin í hóp "dassara". En, allavega. Hér er mín aðferð; 



  • Ég skar kartöflurnar í frekar litla teninga, púrrulaukinn í smátt sem og chillýið og setti í stóran pott og lét krauma í smá matarolíu. 
  • Skar beikonið einnig smátt og bætti út í. 
  • Þegar þetta var aðeins farið að brúnast skellti ég innihaldi tómatdósarinnar út í sem og tómatpúrrunni. Þar á eftir gulu baununum og safanum úr dósinni. Að því loknu treysti ég mér til þess að meta vatnsmagnið, byrjið rólega og bætið frekar í. Þarna setti ég líka teningana, bætti svo í þá síðar í ferlinu. 
  • Þar sem við mæðgur höfðum daginn fyrir okkur í eldamennskunni leyfðum við súpunni að malla á lágum hita í langan tíma. Ég setti rjómann út í eftir að súpan hafði verið dágóða stund á hellunni. Hún varð svo alltaf bragðmeiri og betri eftir því sem hún sauð lengur, en það er ágætt að hafa það í huga varðandi kryddun gera það smá saman.

Með dásemdinni bárum við fram hvítlauksbrauð og slógum í gegn!

No comments:

Post a Comment