Tuesday, March 4, 2014

Magnað Magnesium

Er nú á 25 viku meðgöngu. Barnið á stærð við gulrófu, samkvæmt spádómnum. 

                              

Engin samlíking er meira við hæfi í dag þar sem sprengidagur er að líða undir lok. Sporðrenndi sjálf þónokkrum bitum af viðmiðinu hjá tengdamóður minni í kvöld sem var svo elskuleg að bjóða okkur í saltkjöt og baunir, túkall. Það er með því albesta sem ég fæ að borða yfir árið og kokkur kvöldsins klikkaði ekki að vanda. 

Hvergi er minnst á það á grænmetisfræðslu-síðunni babycanter.com að börn eigi það til að dvelja vikum og mánuðum saman undir rifbeinunum á manni. Ef ég vissi ekki betur væri ég þess fullviss að ég væri með svæsna millirifjagigt, almáttugur. Er svo endalaust uppgefin á þessu svæði að ég íhuga að láta fjarlægja úr mér nokkur bein, helst bara eftir helgi. 

25 vikna bumba í slökun

Magnesíum hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið og hreinlega nánast kynnt sem bót við hverju sem er. Ég hef átt við verulegan svefnvanda að etja síðustu vikur (já eða mánuði) en sá vandi dúkkar alltaf upp á mínum meðgöngum. Ég hef átt einstaklega erfitt með að ná mér í svefn á kvöldin og enda yfirleitt með því að veltast í rúminu langa stund áður en ég gefst upp og fer fram. Það er hins vegar ekki góð aðferðafræði þegar vinnudagurinn kallar snemma morguns. Læknastéttin var farin að hóta mér slakandi mixtúru því ekki er góð skemmtun að fara svefnlaus og uppgefinn í fæðingu og nýburapartý. 

Ég ákvað hins vegar að prófa að taka inn Magnesíum áður en til "meðferðar" kæmi, þar sem ég var búin að heyra af Slökunar-magnesíum-duftinu í Lyfju. Ég fjárfesti í dollu með sítrónubragði og jeremías hvað það er gott, ég þarf að beita mig hörðu að vera ekki að drekka þetta allan daginn, en aðeins má taka eina til tvær teskeiðar á dag út í vatn. Ég er ekki frá því að þetta virki á mig, svei mér þá. Annað hvort það eða ég er að taka þetta á sálfræðinni, vitandi að ég er að taka inn eitthvað sem "á að gera gagn". Hvort sem er, þá kvarta ég ekki og ætla að gefa svefnlyf upp á bátinn á næstunni. Ég mæli með að þið prófið ef þið eigið erfitt með að ná ykkur niður á kvöldin. 


Nammmmmm...



No comments:

Post a Comment