Saturday, February 13, 2016

Dagur tólf á Bali - algerlega fullkominn lokadagur

Átti svo góðan dag með sjálfri mér hér í Samiyak, alveg frábæran!

Verð reyndar að viðurkenna að ég var frekar súr þegar ég vaknaði og heyrði rigninguna berja á þakinu. Ég dró þó andann bara djúpt, fór í hótelmorgunmat (aðdáandi númer eitt) og þaðan beint í eins og hálfs klukkustundar "meðferð" í Spa-inu hérna uppi, en ég átti pantað í heilnudd og heimatilbúinn skrúbb úr kókosmjólk og salti.



Allir nuddtímar hér á Bali byrja og enda á krydduðu te-i og köldum andlitsklút. Hér er það kalt kanilte, rosa gott. 



Leiðin í spa-ið.


Þegar ég var búin í dekrinu var bara komið fínt veður, hætt að rigna en nánast alskýjað, en þannig var það í allan dag.

Ég fór á ströndina sem er bara svona þriggja mínútna labb frá hótelinu mínu. Ég var að skottast í sjónum og á ströndinni í allavega þrjá tíma, en það gekk af því að það var nánast alveg sólarlaust. Ég er búin að heyra of margar rosalegar brunasögur héðan og var ákveðin í að feta ekki þann veg!



Sjúklega kósí aðstaða, þessir grjónapúðar eru alger snilld!



"Bucket-listinn minn" - ákvað að kíkja á hann í dag og taka til á honum. Hann hef ég átt í nokkur ár og hefur skiljanlega verið "lifandi" en að mestu haldist óbreyttur. 

Á honum eru atriði sem mig dreymir um að framkvæma áður en ég fer yfir móðuna miklu. 
Ég verð að viðurkenna að flest atriðin á honum voru það "stór" að mér þannst þau bara háflgerð draumsýn - eins og tildæmis Baliferðin sem mig hefur dreymt um síðan ég man eftir mér. 

Þegar ég vaknaði úr september-rotinu ákvað ég tvennt; að fara að standa með sjálfri mér og láta draumana mína rætast! Ekki flókið en sérstaklega mikilvægt. 

Það sem af er árinu 2016 hef ég þegar getað hakað við tvö atriði af listanum (Bali og að vinna við sjónvarp) og tel miklar líkur á því að tvö í viðbót fái að fjúka áður en árið er liðið. Áður hafði ég ekki náð að framkvæma neitt þeirra, einfaldlega af því að ég trúði ekki mér væri það mögulegt.

Þannig að, það er allt hægt krakkar og ég vona að þessi litla saga verði til þess að þið rífið upp listann ykkar, eða þá farið að skrifa hann og vinnið í framhaldinu markvisst að því að lifa draumana ykkar. 




Ég hef ekkert klikkað á því að næra mig hér á Bali og þarf ekkert að spá í það hvort ég komist í gallabuxurnar mínar þegar ég kem heim. Látum joggarana bara duga fram á vor!


Eftir miðdegislúrinn fór ég aftur niður á strönd, til þess að freista þess að sjá balinískt sólarlag. Það var töluverð bjartsýni og gekk ekki, en fallegt var þar engu að síður í ljósaskiptunum.





Ótrúlega skemmtileg reggae hljómsveit sem dúkkaði upp í ljósaskiptunum. Gítarleikarinn og söngvarinn, lengst við hægri, var að hugsa um að koma bara með mér til Íslands. 




 Frekar mikið næs!


Á morgun hef ég ferðalagið heim. Mæti á flugvöllinn hér klukkan fimm á balinískum tíma en lendi ekki í Keflavík fyrr en á mánudagskvöld og kemst ekki heim fyrr en einhverntíman á þriðjudaginn.

Ég er alveg tilbúin til þess að fara heim af því ég veit að ég á eftir að koma aftur fljótlega. Dreymir um að koma með krakkana og vera helst í einhvern smá tíma.

Hver einasta fruma í líkama mínum er farin að þrá krakkaknús, en ég hef aldrei verið svona lengi frá Emil og hef átt frekar erfitt vegna þessa - það verður ekkert betra en að sækja hann í leikskólann á þriðjudaginn, knúsa hin eftir skóla og fá stóra heim í helgarfrí.



Aleigan mín!




Læt þetta vera síðustu færsluna héðan úr paradís. Sjáumst heima!


2 comments: