Monday, May 16, 2016

Þá sjaldan


Ég heiti Kristborg Bóel og er glataður bloggari. Er alveg sallafín þegar ég tek mér til, þá sjaldan. 

Las færslu hjá "gamalli" skólasystur minni um daginn þar sem hún var að mæla með skemmtilegum bloggum og rakst þar á mitt eigið nafn og eftirfarandi umsögn; 

"Krissa76 er Stöðfirðingur og gömul skólasystir mín frá Eiðum og nú blaðamaður hjá Austurfrétt/Austurglugganum ásamt því að vera sjónvarpsstjarna hjá N4. Hún tekur góðar skorpur í blogginu og það eina sem ég hef út á að setja er að hún mætti taka fleiri slíkar."

Obbosí. Það er ekki nógu gott að vera í flokkinum "Bloggin sem mér finnst þið ættuð að lesa" og skrifa svo aldrei neitt. Það er svona svolítið eins og að kaupa Moggann og hann bærist bara um páska og verslunarmannahelgi. 

Einmitt. Ég er skorpumanneskja. 

Byrja af fullum krafti í ræktinni og helst búin að gefa yfirlýsingar fyrir alþjóð um sixpakk fyrir sumarið eða þá skjóta mig í fótinn með að gera veðmál við einhvern um betri árangur en hann. Mæti samviskusamari en nunna í messu fyrstu dagana en svo fer að halla undan fæti. Það koma annað hvort jól, páskar eða þá sumar og þá er ekki hægt að fara inn í sal að pumpa. Nei, þá er bara best að hætta. 

Nú eða þá mataræðið maður lifandi. Það er auðvitað tekið föstum tökum samhliða. Áfram gakk, einn, tveir, þrír. Ekkert rugl. Byrja helst á föstukúr í nokkra daga. Kaupi þá öll þau fræ og olíur sem ég finn í Krónunni sem og lífræn egg og ósykursprautaðar kjúklingabringur. Brauð? Nei, vík frá mér Satan. Aldrei mun ég aftur borða brauð, það er verkfæri djöfulsins. Á fjórða degi gleymi ég mér og anda að mér heilu samlokubrauði ef það verður á vegi mínum. Helst með einhverju sem inniheldur mæjónes. Fallin, með 4,9. 

Bloggskorpurnar eru svipaðar. Tek góðar rispur en svo kannski heyrist ekki í mér í hálft ár. Reyndi líka að verða snappari, en það gekk ekki. Get ekkert sem ég verð að halda dampi í. Ekkert maraþonhlaup, bara spretthlaup. 

Allavega. Hver veit nema tilnefning Dagnýjar verði mér hvatning og ég fari að drullast til þess að segja sögur héðan úr dragúldnum hversdagsleikanum?

Ef ég klikka, sem ég tel afar góðar líkur á, þá má allavega treysta á mína gömlu skólasystur frá Alþýðuskólanum á Eiðum, en hún segir skemmtilegar sögur úr Danaveldi hér




No comments:

Post a Comment