Thursday, June 2, 2016

20


Frumburðurinn minn og ljúfmetið, Almar Blær, á afmæli í dag. Ekkert bara eitthvað afmæli, heldur stórafmæli, barnið er tvítugt.

Ég skil þetta ekki. Þegar ég var tvítug fannst mér ég allavega vera fertug, svo fullorðin var ég, enda sjálf orðin móðir. Og þegar ég var tvítug, fannst mér fertugir, eins og ég er í dag, vera á síðasta söludegi og stefna hraðbyri á Grund. 

Í dag er barnið mitt tvítugt. Hvernig sem ég velti þessu upp, en þá er ég að meina hverri einustu steinvölu, þá skil ég þetta ekki. Það hræðir mig hve tíminn líður hratt. 

Í ár höfum við semsagt verið saman hálfa ævi mína, sem er sturluð staðreynd enda segir hann reglulega að honum finnist við ein og sama sálin.

Við vorum saman í sex ár áður en hann eignaðist systkini og gerðum allt saman. Hann druslaðist með mér út um allt og var fastagestur í A-bekknum í Kennó um þriggja ára skeið. Hann fæddist einhvernveginn 100 ára gamall, auk þess sem við ræddum mikið saman og lásum. 

Oft hefur hann veitt mér skýra sýn og opinn faðm, sérstaklega í vetur á umbrotatímum. Sagði mér reglulega þegar ég lá í fósturstellingu og alveg að bugast yfir öllu saman - "Mamma mín, þú getur þetta. Þú ert eina sem ég þekki sem getur allt, sterkasta, klárasta og duglegasta manneskja sem ég þekki. Þú ert fyrirmyndin mín og krakkanna, sú allra besta sem við getum fengið." Já, ég grét. Mikið. 

Í dag er bjartur og draumfagur dagur, rétt eins og hann sjálfur sem ber af sér mikinn þokka og einstaka útgeislun. 

Á morgun ætlum við að borða saman í hádeginu og fagna áfanganum. Kannski rifja upp skaðann sem hann telur sig hafa orðið fyrir í tónlistarlegu uppeldi móður sinnar. Kannski líka uppáhalds persónuna okkar, Fröken Guðrúnu, sem hann skapaði fjögurra ára gamall og lék heilt sumar. Svaraði ekki öðru kalli en því að vera hótelstýran Guðrún sem var verulega ströng og stúrin í skapi og hafði flest allt á hornum sér. Kannski líka þegar hann kleip ömmu sína svo fast í nefið að hún gekk um með það fjólublátt í þrjár vikur á eftir. Það hefur þó líklega verið skassið hún Guðrún.

Hér koma nokkrar gamlar, en þó góðar af okkur sálufélögunum.









Til hamingju lov!
















No comments:

Post a Comment