Wednesday, April 10, 2013

Atvinnuleysi er mannskemmandi

Samkvæmt hagstofu Íslands var 4.7% atvinnuleysi á Íslandi í febrúarmánuði 2013. Nú eru um fimm og hálfur mánuður síðan ég gekk til liðs við umrædda prósentutölu. Eftir lögbundinn uppsagnarfrest á launum sem og útborgað orlof geng ég nú á Guðs vegum. Ekki alveg kannski, heldur á vegum Vinnumálastofnunar. Það er ekki góð skemmtun.

Fór einmitt í ráðgjafaviðtal hjá stéttafélaginu mínu í gær þar sem ég fékk að vita að ég fengi heilar 172 þúsund krónur útborgaðar á mánuði. Helvíti fínt bara. Þegar ég verð búin að borga leiguna á ég 30 þúsund kall eftir, en þegar ég hins vegar verð búin að borga alla greiðsluþjónustuna er ég allavega komin 30 þúsund kall í mínus. Þá á ég eftir að kaupa í matinn, taka bensín og allt hitt sem tilheyrir því að lifa. Þið getið þá hæglega reiknað út mínustölu mínum um mánaðamót! Blessunarlega hef ég þó Gísla mér við hlið og slepp því við að flytja með krakkana á tjaldstæðið eða þá fara að selja mig. Þrátt fyrir það stórefa ég að endar nái saman hjá okkur við þessar aðstæður.

Peningahliðin er ein, andlega hliðin er önnur. Þeir vita sem hafa staðið í mínum sporum að nauðsynlegt er að vera alveg á tánum til þess að tapa ekki sönsum undir þessum kringumstæðum. Eins og talandi sýnidæmi. Ég hef gengið í gegnum allan skalann sem rannsóknir sýna að einkenni fólk sem missir vinnuna sína. Fyrst var ég fjúkandi reið og fannst ég alveg svakalega ómöguleg. Eftir að ég áttaði mig á því að svo væri ekki, sætti mig við missinn og horfði á hann sem sem tækifæri til að hefja nýtt tímabil og halda áfram að byggja starfsferil minn upp annarsstaðar var spurningin - en hvar? Það er vissulega erfitt að finna spennandi atvinnutækifæri á svo litlum stað. Auðvitað hef ég haft öll skilningarvit galopin og sótt um þau störf sem mér finnst henta. Þetta er bara óendanlega þreytandi og leiðinlegt ferli.

Ég tek svo sannarlega hattinn minn ofan fyrir þeim sem eru heima mánuðum eða jafnvel árum saman. Sama hvort þeir eru í sömu sporum og ég eða hreinlega velja það að vera heima. Jeremías. Það eitt að detta út úr rútínu, að fara ekki út með fjölskyldunni á morgnanna til að takast á við krefjandi verkefni er pínu "lamandi". Það er erfitt að útskýra þetta, en eftir því sem maður hefur meiri tíma og er lengur heima, því latari verður maður. Merkilegt og algert rannsóknarefni fyrir mastersnema!

Langvinnt heimahangs á engan vegin við mig, bara ekki! Fyrir utan stanslausar peningaáhyggjur leiðist mér svo yfirnáttúrulega að hanga heima og gera ekki neitt að ég hef þróað með mér ímyndaða vinkonu - verst að hún er álíka fúl orðin að hanga með mér og ég henni. Fríða fúla! Ógeðslega leiðinleg. Oj.

Ef kosið væri um leiðinlegustu manneskju Reyðarfjarðar þessa vikuna væri ég ótvíræður sigurvegari. Ótvíræður! Jafnvel aðra vikuna í röð. Fengi hugsanlega áritaðan platta og glimmerkórónu. Gísli á heiður skilinn af vera ekki margoft búinn að kasta mér fram af svölunum - stappar þess í stað í mig stálinu og sannfærir mig um að ég sé mesti töffari í heimi þegar ég tek "ómögulegu ræðuna" og músaköstin. Bestur.

Vá hvað ég er leiðinleg! Eru ekki örugglega allir hættir að lesa? Skýrslan um Hrunið er að öllum líkindum mun meira skemmtilefni. Almáttugur.

Ég hef þó passað mig á því að troða mér reglulega í allt, allt of þröngan og þvælda Pollýönnugallann og stunda uppbyggiegt og jákvætt sjálfstal. Hvað er það versta sem gerist? Hlutirnir gætu verið svo miklu verri. Ég er heilbrigð, með góða heilsu. Ég á þrjú undraverð börn, góðan kærasta og fjölskyldu sem og fullt af frábærum vinum. Hvað er ég að tuða?

Ég hef líka haft allt of mikinn tíma til að hugsa og því fengið ógrynni hugmynda í hausinn á þessum tíma. Allt frá skemmtilegum bókahugmyndum, áframhaldandi námsmöguleikum, öðrum framtíðaráformum og almennt því að gera heiminn betri. Vandinn er sá að ég verð augljóslega að vera minns í 100% vinnu meðfram heimilinu til þess að koma mér að því að framkvæma eitthvað að þessu!

Ekki er hægt að draga nokkra niðurstöðu af þessari færslu. Enga einustu. Fengi ekki hátt ef um fræðilega umfjöllun væri að ræða.

Helstu staðreyndir eru þó þessar: Ég verð að fá vinnu því ég get ekki hangið svona heima stundinni lengur! Það segi ég og skrifa. Auk þess er ég að verða allt of feit í Pollýönnugallann! Mér finnst hann líka ógeðslega lummó.

P.s. Myndin hér að neðan er ekki af mér að stökkva í sjóinn úr leiðindum og frústrasjón, heldur var tekin á leið minni á Bræðsluna árið 2011. Það var gaman. Ójá.



No comments:

Post a Comment