Monday, April 8, 2013

Góð stjúptengsl eru meira virði en allt heimsins gull!

Ég þakka fyrir stjúpmóður barnanna minn á hverjum einasta degi, jafnvel oft á dag. Reyndar vil ég alls ekki kalla hana stjúpmóður, heldur hina mömmu þeirra eða þá bara Rebekku.

Af hverju? Ég þekki allt of mörg dæmi þess að samskiptin milli fjölskylda barna gangi erfiðlega og oft á tíðum mjög illa. Það bitnar því miður aðallega á þeim sem síst eiga það skilið, börnunum sjálfum. Sorglegt.

Ekki er nú svo að ég sitji hér með pússaðan geislabaug og láti sem öll samskipti hafi verið eins og ljósbleikt kandífloss frá fyrsta degi. Alls ekki. Eðlilega gekk á ýmsu fyrstu 10 kílómetrana en einhvernvegin hefur okkur öllum borið gæfa til að snúa málunum þannig í dag að allir beri sem mestan hag af.

Ég veit að sumum þykir þetta allt saman undarlegt. Að ég kíki með krakkana í kaffi til Rebekku og Rúnars litla eða við Rebekka séum vinkonur á hinni heilögu Facebook. Töluðum einmitt saman í morgun og djókuðum með það að við Gísli yrðum bara að flytja inn á þau meðan ég væri atvinnulaus, svona til að lifa af. Yrðum bara í koju í gestaherberginu og allir myndu skiptast á að elda. Bara eins og í sumarbúðum. Kannski er eðlilegt að sumir klóri sér í hausnum vegna þessa, því miður eru slík samskipti  ekki sjálfgefin.

Ég er ekkert að tala fyrir því að fyrrverandi sambýisfólk sé í matarklúbb með sínum nýju mökum eða að mamma A og mamma B séu trúnaðarvinkonur. Alls ekki. En, léttirinn og frelsið fyrir alla sem hlýst af betri samskiptum er ómetanlegur.

Fyrir utan að líða dásamlega með það sjálfri þá finn ég hvað það skiptir krakkana miklu máli að allir séu saman í liði. Að við getum talað um Rebekku, pabba og Rúnar litla sem hluta af okkur öllum. Þór einmitt spurði áður en Rúnar fæddist hvort að hann kæmi þá með þeim til okkar aðra hverja viku - fannst ekkert að því og bara sjálfsagt. Þetta fannst mér lýsa því best hvað þetta er allt saman eðlilegt og gott.

Það sem skiptir mig öllu máli er að börnin mín séu elskuð af öllum sem eiga við þau dagleg samskipti. Frá fyrsta degi hef ég fundið að Rebekka hefur tekið þeim sem sínum eigin og alltaf talað þannig - en það skilar sér að sjálfsögðu til vellíðunar og væntumþykju frá krökkunum til hennar.

Skilnaður er aldrei auðveldur eða fyrsta val. Því miður enda rúmlega helmingur sambanda þó þannig og í þeirri stöðu vænlegast að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að spila sem best úr aðstæðum, allra vegna.

Ég vildi svo óska að fleiri væru eins heppnir með þetta allt saman og við. Þá væri heimurinn betri.

2 comments: