Wednesday, April 17, 2013

Og þá ældi Gísli upp í sig. Af bókafíkn og fleiru.

Ég elska bækur og texta. Ein af mínum fyrstu æskuminningum er þegar ég lá á maganum í bókasafninu á Stöðvarfirði og skoðaði bækur. Fimm ára í gallasmekkbuxum, berfætt og með tígó. Með staflana í kringum mig. Mátti skoða allt sem ég vildi, þá voru sko jólin! Hlustaði á kórsöng um leið, en kirkjukórinn æfði þar um tíma og foreldrar mínir voru bæði meðlimir í honum. Þess vegna er ég kannski eins og ég er. Veit fátt yndislegra en sálma og bækur - er 400 ára gömul sál.

Elska lyktina á bókasöfnum, sniffa eins og fíkill af hverri bókinni af fætur annarri. Ummm. Man alltaf sérstaklega eftir lyktinni af Prúðuleikarabókinni minni, en ég þefaði meira af henni heldur en ég las. Fannst hvort sem er aldrei gaman af svona vitleysistexta eða myndasögum. Tók sjálfa mig allt of hátíðlega, allt of snemma.

Ég hef alltaf lesið mikið fyrir krakkana mína, þykir það afskaplega stór partur af góðu uppeldi. Bæði eykur það orðaforða og er mikilvægt upp á hlustun, athygli og ímyndunarafl. Síðast en ekki síst er ekkert dásamlegra en að gera upp daginn með því að leggjast öll upp í eitt ból, spjalla smá og lesa kafla í skemmtilegri bók.

Finnst allt heillandi við bækur og texta. Ef ég myndi vinna í búð, þá væri það bókabúð. Ef ég ætti fyrirtæki þá væri það bókakaffi. Mér finnst bækur fegra umhverfið og hef afar mikla þörf fyrir að hafa bækur í kringum mig á heimilinu mínu. Finnst bóklaust heimili hálf sálarlaust. Sambýlismaður minn hefur takmarkaðan skilning á þessu en lætur þetta yfir sig ganga. Blöskraði þó þegar ég kom svífandi heim um daginn og tilkynnti honum hversu heppin ég væri - góð vinkona mín ætlaði að gefa mér sex bókakassa! Spurði mig bara góðlátlega hvar ég ætlaði svosem að koma herlegheitunum fyrir. Það varðaði mig ekkert um, það er alltaf pláss fyrir slíka fegurð, hvar sem er.

Svo ég komi mér nú að efninu, þá dró ég hinn sama með mér á bókamarkað á Egilsstöðum um helgina. Met mikils að Stóri bókamarkaðurinn druslist um landið og gefi nördum eins og mér færi á að eyða smá pening einu sinni á ári og fá almenna útrás. Vel gert. Þess ber að geta að það var þó alls ekki eina erindið á Héraði þann dag. Ég að fara að syngja og hann að fara á fótboltaleik. Allir jafnir. 1-1.

Á leiðinni reyndi ég að selja þetta mjög kæruleysislega:

Ég: Þú þarft ekkert að koma með mér ef þú nennir því ekki ástin mín.
Gísli: Jú, jú - auðvitað kem ég með þér.
Ég: Já, ég verð bara fimm mínútur sko, bara rétt að kíkja. 
Gísli: Uhumm, einmitt.

Sá samstundis eftir því að hafa dregið betri helminginn með mér inn. Já og nánast bara í Egilsstaði, því ég hefði getað hugsað mér að dvelja þarna til kvölds. Það bara gerist eitthvað þegar ég fer á stefnumót við svona margar bækur, ég fyllist einhverskonar heilögum anda. Dett hálfpartinn út og verð varla viðræðuhæf. Reyndi þó að láta á voðalega litlu bera, enda í fyrsta skipti sem hann er að koma með mér á slíka samkomu. Sýndi mikla stillingu, skoðaði lítillega og þóttist áhugalítil að mestu. Keypti þrjár bækur krakkana og tvær fyrir mig. Tók tólf mínútur allt í allt, takk fyrir og bless.

Awww, lov, lov, love it!
Kiddi klaufi er klassi.
Nei, ókei, núna kem ég mér að efninu. Lofa því. Tók semsagt tvær bækur fyrir mig og fyrir einhverja algera rælni urðu akkúrat þær fyrir valinu. Báðar eftir íslenskan rithöfund sem heitir Auður Ava Ólafsdóttir. Afleggjarinn og Rigning í nóvember. Titlarnir og kápurnar láta afsaplega lítið yfir sér og ég hef ekki hugmynd af hverju ég greip þær, hef aldrei lesið neitt eftir þessa konu. En, ó mæ. Þær eru æði. Æði.

Auður Ava Ólafsdóttir

Ætla ekki að upplýsa neitt um innihald, heldur láta ykkur um að lesa - en þessi samtalsbútur átti sér stað í paraholunni í gærkvöldi.

Við vorum bæði að lesa, ég að klára Afleggjarann og Gísli að byrja á sinni annarri Arnaldsbók á jafnmörgum dögum. Ég flissaði annað slagið, milli hóstakasta. Gísli lítur á mig og segir:

Gísli: Er þetta svona skemmtileg bók?
Ég: Já, mjög. En aðallega er þetta svo fallega skrifaður texti. 
Gísli: Sorrý, en ég ældi aðeins upp í mig!
Ég: Ha, ha, ha, ha! Æji þarna. Eða þú veist. Hún er fyndin og svo vel skrifuð. Mig langar ekki að klára bækurnar, tími því ekki!

Einmitt. Það eru bara ekki allir eins voðalegir nördar og ég. Það er ljóst. Held bara að Gísli minn lesi hvorki né horfi á neitt nema þar séu að minnsta kosti þrír drepnir.

Sjálf er á leiðinni í Héraðið á nýjan leik. Á þann stóra, ALein. Ætla svo sannarlega að tryggja mér hina titlana eftir þennan frábæra höfund. Myndi kynna mér málið líka ef ég væri þið.

No comments:

Post a Comment