Thursday, May 23, 2013

Þarf ég að vera kjarneðlisfræðingur til að fá vinnu?

Í dag er ég pirruð. Veit ég á ekki að vera það, sólin skín, ég og mínir heilbrigðir og ný ríkisstjórn komin til valda. Allt að gerast. Ég er það samt því ég var áðan að fá fjórðu neituna um vinnu á skömmum tíma. Líklega eins og gengur og gerist hjá atvinnuleytendum...

Ég hef vandað mig að vera rosa jákvæð og hress. Þvæ og strauja Pollýönnukjólinn á hverju kvöldi til þess ég geti nú klæðst honum skammlaust næsta dag. Búin að sækja um allskonar vinnur, en viðurkenni þó að enn er ég að sækja um á þeim sviðum sem mig langar helst að vera á. Ég er ekki farin út í það að sækja um "hvað sem er" - en það styttist greinilega í það...

Það sem hefur komið mér helst á óvart í þessu ferli er hve ótrúlegur fjöldi umsókna berst um hvert og eitt starf. Í mínu tilfelli eru þær að hanga í kringum 40 og heyrði á dögunum af stöðu sem auglýst var hér í bæ þar sem 75 sóttu um. Ég hef reyndar blessunarlega ekki verið atvinnuleytandi áður þannig að ég þekki þetta ekki, er kannski bara það sem alltaf hefur verið upp á teningnum. Staðan er því sú að ég er ekki einu sinni að komast í viðtalshóp hvað þá annað...

Var vongóð með það síðasta en stóri dómur þess barst í tölvupósti í morgun. Um er að ræða stöðu verkefnastjóra fræðslumála hjá ákveðnu fyrirtæki. Sá mér nú leik á borði að sækja um - svo ég tali nú eins og Georg Bjarnfreðarson kollegi minn - þá er ég með tvær háskólagráður í fagniu. Segi nú ekki að ég hafi verið farin að kaupa mér skrifstofugögn, en ég var bjartsýn að fá í það minnsta að fylgja stórglæsilegri umsókn minni eftir, þó svo ég segi nú sjálf frá...

Nei takk, ekki var það nú svo gott. Búið er að ráða í stöðuna, en þeim 37 sem sóttu um var raðað í flokka eftir menntun og reynslu. Eðlilega. Komst ekki einu sinni í viðtal. Þarf ég að vera kjarneðlisfræðiengur til þess að fá vinnu? Eða með fjórfalt doktorspróf í "óskiljanlegumgreinum"? Segi nú bara eins og pabbi sem var heimsmeistari í að tvinna saman blótsyrðum: andskotans, helvítis, djöfulsins djöfull!

Jæja. Fagna því að sama skapi hvað við hljótum að vera með frábæran hóp fólks, vel menntaðan og frambærilegan í umhverfinu okkar. Í alvöru ég geri það, ég er nú kannski ekki alveg Birna Björns frá Bitrustöðum. Óska kynsystur minni innilega til hamingju og óska henni velfarnaðar í starfi og því að halda áfram að byggja upp það frábæra starf sem hefur átt sér stað í háskólamálunum hér austanlands...

Ég aftur á móti hef ákveðið að fara í mastersnám í haust. Það er eina sem blífur - að afla sér menntunar svo lengi sem lifir, ef tækifærin eru fyrir hendi. Það er einmitt einn heilaþvottafyrirlesturinn sem ég held reglulega fyrir börnin mín. Lærið, lærið, lærið. Lifið og njótið! Ætla að bæta við mig fjölskylduráðgjöf, tveggja ára fjarnám með vinnu frá HÍ sem lýkur með diplómu og svo skellir maður ofan á einni mastersritgerð...

Með vinnu. Tókuð þið eftir því? Ég verð þá kannski einmitt að halda áfram að leita að vinnu. Bara á morgun. Pollýönnukjóllinn er grútskítugur í dag og ég ætla ekki að þvo hann fyrr en í kvöld. Er ekki í stuði. Væri til í að vera teiknimyndapersóna í dag. Geta bara pakkað mér og mínum niður og farið hvert sem er. Bara aðeins. Langar burt úr snjókomu í maí. Langar burt frá atvinnuleyt. Langar til Afríku. Þar þarf ég ekki að vera í kjól, bara allsber í strápilsi, borða maiísgraut og bera vatn á höfðinu. Bara borða, biðja og elska...


Vá hvað ég er ógeðslega leiðinleg í dag. Afsakið - og það svona rétt eftir hlé. Ég lofa að vera skemmtileg á morgun. Jafnvel tala um rauðrófur sem ég elska þessa dagana. Það ER skemmtilegt, víst

No comments:

Post a Comment