Friday, May 24, 2013

Ráð óskast vegna flutninga!

Skítt með rauðrófurnar (sjá gærdagspistil) - við erum að fara að flytja. Enn einu sinni. Kommon, er nú búin að hanga í sömu íbúð í fimm mánuði!

Dettur ekki í hug að fara að segja almennt frá þeim flutningum, það er orðið svo daglegt brauð hjá okkur. Erum að flytjast um sirka tvær götur, úr fjölbýli í fjórbýli...

Það er tvennt við þetta sem veldur mér heilabrotum:

Annars vegar er það að íbúðin er heldur minni og ég hreinlega veit ekki hvernig ég á að grisja dótið mitt eða þá galdra fram geymslupláss sem er ekki til staðar, en við hjónaleysin ætlum að troða okkur í minnsta herbergið sem skráð er geymsla! Þannig að ég verð geymslulaus með öllu og það er bagalegt. Veit einhver um slíkt pláss hér á RF sem hægt er að leigja fyrir slikk?

Hins vegar er það eldhúsborðið mitt. Það er ógeðslegt. Ég hata það. Ókei? Um er að ræða dæmigert viðarborð, líklega úr Rúmfatalagernum - man hreinlega ekki hvar eða hvernig mér áskotnaðist það. Það sem mig langar að fá ykkur til þess að velta upp með mér, hvað ég get gert til að fegra borðið? Ekki er ég atvinnulaus konan að fara að fjárfesta, þá aðeins mesta lagi í málningu! Lá í rúminu og hugsaði þetta í gærkvöld. Datt í hug að;

 • Mála það - samt ekki einhvernvegin. Hefði þá aðeins dottið í hug að mála það hvítt, en stólarnir mínir eru hvítir. Svart gengur ekki, nenni ekki að horfa á ryk allan daginn ef svo ólíklega vildi til að sólin myndi skína eitthvað á þessum landshluta.
 • Flísaleggja það - kannski mölbrjóta einhverjar skemmtilegar flísar og skella á það. Held að það sé ekki svo góð hugmynd þó skemmtileg sé.
 • Glerplata - láta skera fyrir mig glerplötu sem ég gæti sett ofan á og fest einhvernegin á hornunum til þess að hún færi ekki á flakk. Datt í hug að þá gæti ég haft allskonar sýningar undir glerinu, það sem hentar hverju sinni. Ljósmyndir, blaðaúrklippur, póstkort, sögur og ég veit ekki hvað og hvað. Finnst þetta voða góð hugmynd hjá mér en hugsa að ég yrði þreytt á henni til lengdar.
 • Pússa og lakka - leiðinlegasta hugmyndin en líklega sú praktískasta og besta. Það eru allskonar blettir á plötunni og kannski næðist það fallegt með því að hjakkast á pússugræjunni og lakka svo glært yfir? Æji, ég veit það ekki. Það er í það minnsta verkefni fyrir Gísla, finnst það of leiðinlegt. Já, svo má kannski mála bara plötuna?
Elsku gefið mér ráð svo mér detti ekki í hug að gefa borðið vegna flutninga!

Góða, góða helgi1 comment:

 1. Sæl frænka
  Ég keypti svona plastfilmu sem er bara límd á til að lappa upp a borðið mitt. Það var hægt að fá allskonar liti og munstur og áferð
  Kv. Jóhanna Björk

  ReplyDelete