Thursday, May 2, 2013

Fjársjóðs(ráns)ferð

Var að koma heim úr svaðalegri fjársjóðsferð í minn uppeldisbæ - Stöðvarfjörð. Kom nú svosem ekki til af góðu, þannig. Fyrir utan að heimsækja móður mína þá var þessi ferð gagngert til þess að hengja upp auglýsingu í sjoppunni.

Fyrir þá sem ekki eru vinir mínir á Facebook þá verð ég að greina frá því sem gerðist um daginn. Það var ekki skemmtilegt. Þeir sem þekkja mig vita að ég er sökker fyrir gömlu dóti - húsgögnum úr tekki, gömlum bollum, kjólum og fleiru. Það taldi ég að móðir mín vissi líka. Allavega ætti að vita, kommon!

Ég var búin að telja í mig kjark í marga daga til þess að biðja hana um að lána mér ákveðið gersemi í hennar einu. Var alveg með í maganum yfir þessu. Vantaði svo ofboðslega litla, netta og eldgamla tekksnyrtiborðið sem hafði verið inn í svefnherbergi hjá henni síðan ég man eftir mér. Svo fallegt. Ég sá það fyrir mér við gluggann minn hér í 403, til þess að ég gæti krúsað þar með elsku makkann minn og skrifað. Horft út á hafið til þess að fyllast inspírasjón, jú sí. Við borðið átti hún stól sem mér hefur líka alltaf þótt svo fallegur. Hann er ekki ósvipaður Sjöunni eftir Arne Jacobsen, en úr tekki og "loðinn".

Það var svo að móðir mín kom við í kaffi á dögunum og þá fann ég að það var komið að því. Ég ákvað að æla fyrirspurninni út úr mér. Spurði hvort ég mætti fá snyrtiborðið lánað, þar sem hún væri hætt að nota það. Það myndi koma sér vel fyrir hana þegar ég yrði metsöluhöfundur ossonna - gæti hent í hana nokkrum hundraðþúsundköllum. Ég sá samstundis að ekki var allt með felldu. Hún varð myntugræn á litinn og skökk í framan. "Ekki Jóna Arnfríður", sagði ég. "Ekki, ekki, EKKI segja mér að þú hafir hent borðinu?"

Jú, kærar þakkir. Það var einmitt það sem móðir mín hafði gert. Þegar hún hætti að nota borðið (sem ég reyndar skil ekki sökum yfirgengilegrar fegurðar) og kom því ekki upp á háaloft með góðu móti ein síns liðs, þá sá hún ekki neitt annað í stöðunni en að henda því á haugana. Og hana nú! Ég fann hvernig ég varð máttlaus í löppunum og langaði í borðið sem aldrei, nokkurntíman fyrr...

Brá því á það ráð að útbúa plagat og greina sveitungum mínum frá þessum hamförum. Jafnfram að biðja þá A) að stöðva móður mína ef sést til hennar bera eitthvað út úr húsi sínu sem hún annað hvort gæti gefið dóttur sinni eða þá selt á 80.000 kall á blandinu. B) að athuga hvort sambærilegt borð, eða þá lítið tekk-skrifborð leynist í bílskúrnum eða geymslunni og safnar bara ryki. Biðja þá alla hina sömu að hafa samband við mig á stundinni. Fyrst ég var að þessu á annað borð bað ég þá einnig um að tékka á hansahillum, fallegum retró lömpum og gömlum bollum. Bara svona fyrst ég var komin með tússpennan á loft.

Að sjoppuförinni lokinni fór ég í Fish Factory, en það geri ég í hvert einasta skipti sem ég fer á Stöddann. Ég kem heldur aldrei nokkurntíman tómhent þaðan út. Aldrei!


Skópör á 700 kall hvort. Rauðir dömuskór og súkkulaðibrúnir hermannaklossar. Af hverju í dauðanum ætti ég að standast það? Mér er bara spurn?

Glimmer-gullbuxur, saumaðar af Rósu sjálfri, 2000 kall. Já takk fyrir, það er nú að koma sumar segja þeir.  Það sem ég elska þetta kompaní!

Fór svo auðvitað í kaffi til móður minnar, þrátt fyrir þennan mikla glæp hennar. Hún, uppfull samviskubits, fór með mig í skoðunarhring um húsið. Við það uppskar ég: Tvo stóla, tvo lampa og myndina af litla drengnum með kisuna. Hún var að vísu alla tíð í minni einkaeigu og verð ég að teljast stáhheppin að hún hafi ekki einhverntíman fengið að fjúka!

Arne Jacopsen í dulargerfi. Bjútí. 

Já takk, komið með alla svona lampa til mín!

Litla krúttið, komið heim. Slapp naumlega undan tiltektarofsóknarbrjálaðri ömmu sinni. 

Jóna gerði við gallajakkann minn og allt. Mun nota þetta brot gegn henni mjög lengi!

Þarna var ég búin að hlaða í bílinn öllu því sem mig langaði í þennan daginn. Nema þá mánaðarbollunum, en hún harðneitar að láta mig nokkurntíman hafa þá!  Þarna má sjá einn lampasrerminn af standlampanum sem ég dröslaðist einnig með heim. Drengurinn á hvolfi og ekki í belti!

Þetta var nú aldeilis skemmtilegt. Nú ætla ég að drífa mig að ganga frá þessu öllu áður en elskulegur sambýlismaður minn kemur heim úr vinnu. Hann hefur ekki skilning á svona.

Hann er smekkmaður á ýmsum sviðum, eins og til dæmis við val á kvenfólki - en ber aftur á móti ekki nokkuð einasta skynbragð á hönnun eða góss á við það sem ég bar heim án hans vitundar í dag. Hann á líklega eftir að æla á litla strákinn með kisuna og hugsanlega hafa orð á því að mig vantaði ekki tvenn skópör í viðbót.

Vá hvað það er örugglega mikið mál að vera karlmaður!

2 comments:

  1. Hún er svo ofurfalleg myndin af litla drengnum með kisuna :)

    ReplyDelete
    Replies
    1. Hhahahaha gleymdi að skilja eftir nafn :)
      Kveðja
      Fríða Einars :)

      Delete