Tuesday, June 25, 2013

Svipmyndir frá liðinni helgi. Já og veðurfréttapirringur

Svo virðist sem austurlandið sé heitasti staðurinn í sumar, bókstaflega - en blessuð sólin víkur ekki frá okkur. Það er vissulega kærkomið eftir síðastliðin sumur, ef sumur mætti kalla. 

Það er eitt sem okkur hérnamegin á landinu þykir einstaklega athyglisvert þegar svona stendur á - þá meina ég, þegar sólin er fastagestur hér en ekki á höfuðborgarsvæðinu. Þá láta fréttamenn eins og hún hafi yfirgefið allt landið. "Hvað segir þú Elísabet, æltar sumarið ekkert að fara að láta sjá sig", segja þau og horfa sorgbitnum augum á veðurfréttaþulina. Á meðan "sumarið lætur ekki sjá sig" er hvert einasta mannsbarn á austur- og norðurhelmingi landsins skaðbrennt og með sólsting.

E-e-e-e-eeeen. Daginn sem málin snúast við, sólin mætir í Nauthólsvíkina, eru fréttatímar á báðum stöðum teknir undir. Fyrsta, önnur og jafnvel þriðja frétt er um hamingjusama borgarbúa að borða ís á Klambratúni. Sumarið er LOKSINS komið. Ég veit mætavel að flestir landsmenn búa á suðurhluta landsins og því eðlilegt að flestar fréttir séu þaðan, en þetta er pínu undarleg taktík. Just sayig.

En, þetta var svo sannarlega útúrdúr! Ég ætlaði að setja inn myndir frá annars frábærri helgi þar sem strákarnir mínir komu, sáu og sigruðu!

Á laugardaginn var Skógardagurinn mikli haldin í Hallormsstað, en sá dagur stækkar með ári hverju og alltaf er algerlega frábært veður! Almar Blær endurnýjaði þar kynni sín við Jónatan ræningja sem hann lék með eftirminnilegum hætti með leikfélagi ME og leikfélagi Fljótdalshéraðs í vetur.


Jónatan hefði nú gott af því að skreppa í sund!

Almar Blær hefur frá því hann var í fyrsta bekk grunnskóla haft algerlega skýra stefnu í sínu lífi, það er að klára menntaskóla og skella sér að því loknu beint í inntökuprófin í leiklistarháskólanum. Held hann hafi ekki skipt um skoðun einn einasta dag á þessu tímabili, en hann var að ljúka fyrsta ári í menntaskóla. Hann er algerlega á réttri hillu, það vita þeir sem hafa séð kappann á sviði. Ég er gersamlega að kafna úr monti af þessum frábæra einstaklingi sem ég á! 

Bríet með Tomma töff á skógardeginum mikla
Það er ekki nóg með að ég eigi upprennandi Hollywoodstjörnu, heldur einnig einn sem ætlar sér að verða atvinnumaður í fótbolta. Þór er rosalegur þó ég segi sjálf frá, enda hefur hann æft af kostgæfni mörgum sinnum í viku síðan hann var á næstsíðasta ári í leikskóla. 

Á Bónusmóti sem haldið var á Fellavelli á sunnudaginn gerði hann sér lítið fyrir og smellti boltanum 22 sinnum í netið í fimm leikjum! 

Ég hugsa að ég verði bara í Liverpool á veturna og í Hollý á sumrin. Það er bara fínt plan.

Tvisturinn, það er klassi





Þór og Bríet með litla brósanum sínum sem pabbi þeirra og Rebekka eiga. Sætust í heimi!
Það er ekki svo að ég sé bara að kafna úr monti af þessum strákum mínum, Bríet er bara ekki með neina svona dellu eins og þeir. Hún getur hins vegar allt sem hún ætlar sér og eins og ég sagði í einhverri færslu þá yrði ég ekki hissa ef hún myndi bjóða sig fram til forseta íslenska lýðveldisins um leið og hún hefur aldur til. Ég held grínlaust að ég myndi treysta henni til þess að halda heimili alein í viku - hún myndi ekki einu sinni blása úr nös, bara massa allt saman. Vá hvað ég er lánsöm kona!

Verð að láta þrjár fylgja með í lokin, þær eru að vísu ekki frá helginni, heldur frá síðustu viku þegar við vorum að keyra heim úr fríinu. Kátir krákkar við Jökulsárlón.




No comments:

Post a Comment