Friday, August 16, 2013

Að læra að njóta einveruMannskepnan er félagsvera í eðli sínu og er því ákveðinn lærdómur fólginn í því að njóta einveru.

Ég ólst upp í litlu þorpi hjá foreldrum mínum, fjölskyldu og vinum. Þaðan lá leiðin í heimavistarskóla þar sem ég kynntist barnsföður mínum. Svo komu börnin mín, eitt af öðru. Þeir sem eiga slíkan fjársjóð vita að með tilkomu þeirra á maður ekki eina einkamínútu aflögu - klósettdyrnar eru barðar utan hvað þá annað, slíkar eru vinsældirnar.

Þegar ég svo skildi fyrir nokkrum árum blasti við mér glænýr veruleiki. Glænýr, segi ég og skrifa. Eins og lög gera ráð fyrir í nútímasamfélagi sömdum við um sameiginlegt forræði og þá jafnan viðverutíma með börnunum.

Og hvað? Hvað átti ég að gera? Heila viku, alein? Ég kunni það ekki, ég hafði aldrei reynt það. Ég var eirðarlaus og með "orm í rassinum" í marga mánuði - þ.e. ég gat ekki verið róleg. Gat ekki með nokkru móti verið ein heima hjá mér, varð alltaf að vera á einhverju randi eftir félagsskap.

Einn daginn kom hún svo, sáttin við að vera ein og njóta þess. Í dag finnst mér mjög gott að vera alein af og til, þó svo ég viti fátt skemmtilegra en að vera í góðra vina hópi.

Í þessum skrifuðu orðum sit ég "ein" á Eymundsson á Akureyri. Auðvitað ekki ein, hér er fullt af fólki. Ein að því leyti að ég þarf ekki að tala við neinn eða gefa neitt af mér nema til sjálfrar mín. Gísla langaði í bíó og mig að nördast hér. Skiptum því liði. Ég gæti sitið hér allan daginn ef því er að skipta, hangið á netinu, lesið blöðin og meganördast - ein með sjálfri mér.

Á eftir verður þó gott að kúldrast og knúsast með bíófaranum. Bæði betra, gott báðu megin.

Góða helgi!
No comments:

Post a Comment