Friday, August 9, 2013

Mér finnst rigningin góð. Mjög.

Ummmm...

Það sem ég elska svona rigningardaga. Þegar húsið er fullt af börnum að leik og enginn fer út úr húsi. Blessunarlega á ég svo þæg og góð börn og þau þæga og góða vini að ég get gert það sem ég vil, þarf aðeins að gefa þeim að borða á nokkurra tíma fresti!

Sesam brauðhús bakaði fyrir mig í dag - af því ég hef svo mikið að gera við að gera ekkert. Eins og að lesa blöðin og prjóna. 

Litlu krakkarnir eru með sinn vininn hvort og ég veit ekki af þeim. Í öðru er tveggja daga Bratz-leikur í fullum gangi en í hinu einhverskonar drekaleikur. Dásamlegt.

Stalst inn og myndaði Bratzheimilið. Get þó ekki betur séð en að á gólfinu sé haus - já og fætur!


Mátti ekki með nokkru móti biðja stelpurnar um að taka saman eftir leik gærdagsins. Ég skildi þær svo vel þar sem ég man eftir þegar maður var búinn að byggja upp leik sem stóð svo í marga daga. Við vinkonurnar lögðum undir okkur heilu herbergin og hæðirnar ef því var að skipta svo dögum skipti. Þetta er alveg eins á Íslandi í dag, sem betur fer - nema nú segja menn "minns og þinns" en ekki "minn og þinn" eins og þá. Hvenær breyttist þetta?


Bríet töffari sæl með húfuna sem ég prjónaði í gærkvöldi.

Gíslapeysa er LOKSINS að verða að veruleika. Hann er semsagt ekki lengur "númer 24 í röðinni". Blessaður maðurinn. 

Er með prjónaæði. Það er ekkert nýtt. Ég tek þetta svona í skorpum. Prjóna og prjóna þar til ég "prjóna yfir mig" og hætti þá í svona hálft ár. Nú er byrjun á einhverju prjónatímabili, augljóslega. Finnst fátt notalegra en að sitja og prjóna, með kaffibolla á kantinum og einhverja kósý tónlist. Helst eldgamla. Elsku Haukur Morthens.

Næs!

Jú. Það er eitt sem jafnast á við þá heilun sem prjónaskapur er. Það eru föstudagar þegar ég fer nógu snemma í búðina og vinn bardagann um að ná síðasta Fréttatímablaðinu! Hversu ömurlegt er það að Fréttablaðið sé ekki lengur borið í hús út á landi. Óþolandi. Finnst mun skemmtilegra að skoða fréttir á blaði en á netinu. Kannski af því ég prjóna og hlusta á Hauk. Ég veit það ekki? Ég veit það hinsvegar að ég skoða blöð alltaf frá síðustu blaðsíðu. Það þykir sambýlismanni mínum undarlegt. Ekki mér.

Góða helgi!

No comments:

Post a Comment