Friday, December 5, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 5. desember

5. desember

Nú er best að koma öllum jólapóstinum til útlanda og skrifa þeim bréf sem eru fjærri ættingjum og vinum um jólin. 


--------

Æji já. Ég hef áður viðrað þetta hér. Þetta með jólapóstinn. Það hefur hvorki gengið né rekið með hann undanfarin ár og svo virðist sem upp sé að renna fjórða árið sem jólakortin klikka. Það er þó alveg með hreinum ólíkindum, þar sem ég á fjögur fegurstu börn heims til þess að gorta mig af. Sjáum hvað setur, það er ekki öll nótt úti enn. Alls ekki. 


Hinsvegar, þá er Emilinn okkar hálfs árs í dag. Tíminn er svo ótrúlega fljótur að líða að það er hálf óhugnarlegt. 



Kraftaverkamaðurinn Róbert.


Það er hálft ár síðan ég vakti verðandi föður, aðfaranótt 5. júni, með þessum orðum; "Ég held ég sé að missa vatnið." Gísli þaut upp og sagði; "Ertu viss um að þetta sé vatnið?" Ég svaraði því til að ég væri í það minnsta ekki að pissa á mig. 

Við tókum strax ákvörðun um að hringja í sjúkrabíl þar sem börnin mín hafa ekki látið bíða lengi eftir sér frá fyrstu merkjum og verkjum. 

Gísli; Konan mín er komin í fæðingu, hún er búin að missa vatnið. 

112; (Eftir ráðleggingar hans til handa) Við komum. Viltu biðja hana um að fara úr nærbuxunum. 

Gísli við mig; Þeir vilja að þú farir úr nærbuxunum. 

Ég; Iiii, nei - ég er ekki að fara úr nærbuxunum!

Gísli við 112; Það er eins og ég hélt, hún vill ekki að fara úr nærbuxunum. 

Það er hált ár síðan ég suðaði stanslaust í sjúkraflutningamanninum alla leið á sjúkrahúsið (frá Reyðarfirði yfir á Neskaupstað) að gefa mér mænudeyfingu. Varðaði akkúrat ekkert um að hann hefði hvorki kunnáttu né réttindi til þess. Reyndi að selja honum hugmyndina með sálu minni þar til við renndum í hlaðið. 

Það er hálft ár síðan ég sagði Gísla og ljósmóðurinni að ég ætlaði að skíra barnið Róbert, eftir svæfingalækninum sem gaf mér loks mænudeyfinguna. 

Það er hálft ár síðan að litla yndislega kraftaverkið okkar Gísla kom í heiminn, fimmtudagsmorguninn 5. júní klukkan átta. Reis upp eins og selur á sinni fyrstu mínútu í hinum stóra heimi og rak upp það háværasta öskur sem heyrst hefur í nýbura. 


Þrátt fyrir að Emil hafi vissulega reynt á þolrifin siðustu sex mánuði erum við óendanlega ástfangin af þessum litla síbrosandi orkubolta okkar. Það eru forréttindi að fá að vera foreldrar hans. 



No comments:

Post a Comment