Thursday, December 4, 2014

Jólaalmanak heimilisins

4. desember

Í dag gerum við jólaáætlunina okkar, skrifum niður það sem gera skal til jóla og það sem er frá strikum við yfir. 

--------

Þarna er ég algerlega á heimavelli. Bara eins og Liverpool á Anfield - já nema mér kannski gengur yfirleitt aðeins betur með verkefnin en þeim. Held þó að það borgi sig alls ekki fyrir mig að fara nánar út í þá sálma hér. 

Minnislistar, eða ToDo listar eru mínar ær og kýr. Ekki bara fyrir jólin, heldur bara alla daga ársins. Er með þá út um allt, yfir allt sem ég geri. Í bókum, blaðsneplum, á ísskápnum og handarbakinu. Þannig hefur það alltaf verið. Finnst allt vinnast betur þegar ég er með yfirsýn yfir verkefnin. Svo finnst mér ég svo voðalega dugleg þegar ég get strikað yfir atriðin. 


Fyrir ættingja skal það tekið fram að innihald þess lista þarf alls ekki að endurspegla raunveruleikann - hann breytist stundum ansi hratt. 


Ég hef alltaf verið óttalegur skipulagsfíkill, eins og miðarnir bera með sér, en hef síðustu mánuði reynt að tileinka mér núvitund - að vera í deginum í dag og njóta. Við Emil skelltum okkur í langa göngu eftir hádegi. Það eru forréttindi að geta labbað í svona fallegu umhverfi. Emil hraut að vísu í vagninum meðan ég naut ótrúlegrar veðurblíðunnar, nýfallins snjós og jólaljósa. 
Jólin koma þrátt fyrir hálfkláraða lista. 

Njótum dagsins í dag til fulls í stað þess að hugsa um morgundaginn. 

Það er lífið. 

Carpe diem.

No comments:

Post a Comment