Wednesday, December 3, 2014

Jólaalmanak heimilisins - 3. desember

3. desember

Ef það er fyrirhugað að taka permanent fyrir jólin er heppilegt að gera það núna. Einnig að panta tíma á hárgreiðslu- og rakarastofu fyrir jólin.

--------


Svo hljóðar hið heilaga orð. Takið postulegri blessun. Eru ekki allir örugglega búnir að panta sér permó? 


Helena og ég sjálf, kasólétt af Emil.

Ég bý svo svakalega vel að eiga frábæra vinkonu sem er hársnyrtir, hana Helenu mína, eiganda Exito hár hér á Reyðó. Það er vel, þar sem ég er með óttalegt vesen þegar kemur að hári. Já, sko alveg óttalegt. 

Ég veit ekki hvað ég hef skrifað margar hár-dilemmu-færslur hér, þær eru þónokkrar. Til dæmis þessa hér. Á mynd tvö má einnig sjá okkur stöllur. Þarna hafði ég tekið skyndiákvörðun, fór í greiðslu fyrir þorrablót en kom út með allt aðra klippingu.

Hárklípa mín fer alltaf sama hringinn. Bara eins og sólin. Oftast snýst málið um að safna. Safna og safna hári. Verulega fer þó að síga á ógæfuhliðina þegar á að ná toppnum niður. Ó mig auma. Finnst það bara ekki hægt, af því það er ekki hægt. 

Er með sléttara hár en allt sem slétt er. Og stífara, segir hárgreiðsluspekúlantinn. Það er ekki góð blanda þegar kemur að því að reyna að hemja herlegheitin í síkkunaraðgerðum. 

Því gerist alltaf það sama, svona sirka þetta; 

Ég læt klippa á mér toppinn, þveran og þungan. Yfirleitt. 

Ákveð fljótlega að safna, það gangi ekki alltaf að vera með topp. Langar að safna síðu - jafnsíðu hári. Alveg niður á rass. 



Þegar ég er komin nokkuð áleiðis, toppurinn kominn fyrir augun og ég farin að henda honum upp í teygju og lít út eins og Mía litla í Múmínálfunum, þá guggna ég. Bugast. 

Fer til Helenu, sem ég hef þó tekið heilagt loforð af að láta ekki klippingu eftir mér. Síðast reyndi hún að malda í móinn. Sendi mig tvisvar heim eftir einn kaffibolla. Í þriðja skiptið beitti ég fyrir mig hótunum - sagði það lífsins ómögulegt að vera bæði ólétt OG með ljótt hár - já og ég færi bara í Egilsstaði í klippingu en hún væri með þessa stæla. Þá lét hún undan, skíthrædd um að ég myndi missa vatnið á "stofu-gólfið" af æsingi. Aumingja vesalings vinkona mín. 

Sagan endar alltaf eins. Hef ekki áhuga á síðu hári. Fer í klippingu. Þá meina ég klippingu með stóru K-i. Mig langar að "vera með klippingu" - ekki "söfnunarklippingu". Á því er stór munur krakkar. 


Ég var einmitt á Exito hjá Helenu í gærkvöldi þar sem hún var að útbúa allskyns gjafapakka fyrir jólin. Hún pakkaði inn og ég horfði á. Og borðaði konfekt. Fín verkaskipting.

Vorum einmitt að "breinstorma" um jólaklippinguna mína sem ég fer í 12. desember. Vá hvað ég hlakka til. Svo sem ekki mikið nýtt undir sólinni í hugmyndavinnunni, kemst ekki langt frá þessum "þungu". Nenni heldur ómögulega að lita á mér hárið, en það hef ég ekki gert í sex ár. Langar það af og til, en hætti svo alltaf við. En, við ætlum að gera eitthvað skemmtilegt klipperí eftir níu daga. Ó, gaman, gaman! 


Agnarsmátt brot af Id vörulínunni. 

Helena var að taka inn svo spennandi vörulínu, danskt merki sem heitir Id HAIR

Fyrsti kosturinn er að vörurnar innihalda hvorki Silikon eða Paraben, en það eru efni sem við ættum að reyna að forðast að setja í hárið á okkur eða á húðina. Paraben er rotvarnarefni sem notað er til að lengja líftíma snyrtivara og er í þeim langflestum - allt frá tannkremi, sjampói og yfir í farða. Var að renna yfir þessa grein hér áðan. Talið er að Paraben geti verið krabbameinsvaldandi svo eitthvað sé nefnt. 

 Hvet ykkur til þess að kíkja á vörurnar í baðskápnum ykkar og athuga efnisinnihaldið. Óþarfi er að henda öllu út, en góð hugmynd væri að reyna að finna vörur sem eru lausar við efnið þegar er komið að endurnýjun. 

Almáttugur. Afsakið, ég lagði ekki upp með að vera með efnafræðifyrirlestur í jólaalmanakinu. En, ég er farin að hugsa mikið um þessi mál og er á leiðinni að skipa smám saman út hjá mér. 


P.s. Það er eitt efni sem mér þykir sniðugra en annað í línunni - handáburður og hárefni í senn. Hversu mikil snilld er það? Ég þekki marga "handáburðafíkla" sem gætu vel þegið að geta kássast í hárinu á sér með nýja umferð af handáburði án þess að það líti út eins og smjörklípa. 

Þannig að strákar - já og stelpur, hér eru komnar flottar jólagjafahugmyndir, sem lykta ekki bara eins og dásamlegt kúlutyggjó, heldur fara betur með hár og húð. Tilvaldar undir jólatréð, nú eða til þess að gefa sveinka hugmynd að aðfangadagsgjöf í skóinn handa betri helmingnum.

Splæsið í "læk" á þessa til þess að vera með puttann á púlsinum fyrir jólin.

Já og þessa, til þess að panta klipp!



No comments:

Post a Comment