Wednesday, January 28, 2015

Áform ársins 2015

Ég hræðist orðið áramótaheit. Að heita því að gera eitthvað sem ég svo sjaldan stend við. 

Mig langar hins vegar að gera svo margt. Allskonar. Árið í ár en þar engin undantekning. Ég henti niður í glósubókina mína áformum að því sem mig langar til þess að "afreka" á árinu. Sumt er stórt, annað smátt. Eitthvað verður auðvelt, annað erfitt.


Fyrir mér ganga hlutirnir alltaf best skrifi ég um þá. Undarleg árátta. Draumarnir mínir, áform, áætlanir og ToDo listar. Út um allt. 

Því ætla ég að opinbera listann minn hér. Einnig "heita því" að gera þau atriði upp sem ég næ. Áformin birtast hér hvorki í áherslu,- umfangs,- eða stafrófsröð. 


#1 Lesa átta bækur


Ég sakna þess að lesa ekki meira. Hef í gegnum tíðina verið þokkalega dugleg - þó mis, eftir tímabilum. Síðustu tvö ár hef ég sáralítið lesið vegna mikilla anna. Það gefur mér mikið að lesa, bæði hvíld frá daglegu amstri auk þess sem ég veit fátt áhugaverðara en að auka orðaforðann minn. Ég veit, nördalegt. 

Semsagt. Ég áforma að lesa átta bækur á árinu, finnst það verðugt markmið fyrir mig. Hef aðeins ákveðið tvær fyrstu, en þær eru Alkemistinn eftir Paulo Coelho og Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi. Ef þið hafið einhvað "must read" í huga, þá endilega skjótið.  


#2 Ganga í Stórurð


Mig hefur langað að skoða náttúruperluna Stórurð í Hjaltastaðaþinghá eystra í nokkur ár. Í sumar ætla ég að láta verða af því. Stórurð er án efa eitt stórfenglegasta náttúrufyrirbrigði á Austurlandi og þó víðar væri leitað. Sléttir grasbalar og hyldjúpar þörungabláar tjarnir innan um björg á hæð við fjölbýlishús. Hljómar eins og ævintýraland. 


#3 Beint frá bónda


Ég er eldgömul sál. Allaveg helmingi eldri en aldur minn segir til um og er það nokkuð. Hef alla tíð verið mikil "búkona" - haft áhuga á bakstri, sultugerð og hverskonar "heimilisiðnaði". Langar mest að eiga risastór frystikistu og fylla hana af allskonar aðföngum. En, ég á ekki frystikistu, eða þá húsnæði sem hana rúmar. 

Í haust langar mig hinsvegar að fjárfesta í litlum frystiskáp. Áforma að fylla hann af kjöti "beint frá bónda". Langar í alvöru nautakjöt, lambakjöt og jafnvel folaldakjöt. Ekki eitthvað sem búið er að sprauta í 300 lítrum af vatni. Hvernig er best að bera sig að í þessu hér austanlands?


#4 Gerast líffæragjafi


Ég er búin að hugsa um það lengi að skrá mig sem líffæragjafa. Í rauninni er þetta alveg kýrskýrt í mínum huga, ég hef bara ekki látið verða af því að skrá mig. Þarf ekki annað en að hugsa hvort ég eða mitt fólk gæti hugsað sér að þiggja líffæri ef svo stæði á. Svarið er já og því finnst mér skylda mín að vera tilbúin til þess að gefa á móti. 

Allar upplýsingar er að finna hér á síðu Landlæknisembættisins. 


#5 Fara í myndatöku með öll börnin mín


Hvað er mikilvægara en að festa á filmu þann dýrmætasta fjársjóð sem maður á? Mig langar að setja mér það markmið að fara með þau öll í myndatöku árlega, í það minnsta meðan þau eru svona lítil. Sko, sum þeirra. Finnst líka mikilvægt að eiga myndir þar sem ég er með þeim, en það gerist sárasjaldan, enda að taka flestar þeirra sjálf.


#6 Vinna að mæðginaátakinu "betri líkamleg heilsa"


Á gamlársdag sagði ég frá fögrum fyrirheitum fyrir árið 2015. Í byrjun júní leggjum við sonur spilin á borðið og sjáum hvort okkar hefur náð betri árangri. 


#7 Ná tökum á hugleiðslu/íhugun


Hugleiðsla og íhugun hafa lengi heillað mig en ég hef lítið gert til þess að kynna mér tækni sem hentar mér. Það áfroma ég að gera í ár. 


#8 Hlaupa hálft maraþon


Árið 2011 tók ég þátt í Reykjavíkurmaraþoni og hljóp 10 kílómetra. Í ár er ég með stærri áform og er búin að skrá mig til leiks í hálft maraþon. Á eftir að velja mér góðgerðarfélag til þess að styrkja.

Guð blessi mig. 


#9 Læra á myndavélina mína


Ljósmyndadellan hefur alltaf blundað í mér og ég hef tekið mikið af myndum gegnum tíðina. Í fyrra keypti ég mér nýja vél - skipti frá Canon yfir í Fujifilm X-E2. Kann allt of lítið á hana og leiðist óskaplega að geta ekki notað hana á réttan hátt.

Umhumm. Ég veit að ég get gúgglað mig í gegnum þetta, en ég stefni samt á að fara á námskeið. Það er bæði fljótlegri leið og skemmtilegri, að mínu mati. Þannig að - ef þið vitið um ljósmyndanámskeið á svæðinu innan tíðar, þá endilega deilið. 


#10 Ganga upp í Súlnadal


Ég er fædd og uppalin á Stöðvarfirði og hef aldrei gengið á Súlurnar, eitt fallegasta fjall landsins. Það er skandall og úr því ætla ég að bæta í sumar. 



#11 Gera ljósmyndabækur fyrir árið 2014 og 2015


Já ég veit. Ljósmyndirnar mínar eru mitt hjartans mál og mínar dýrmætustu veraldlegu eigur. Mér finnst ekki nóg að taka myndir og geyma þær í tölvunni. Ég sakna þess að skoða ekki myndir á prenti. Mér finnst líka leiðinlegt að krakkarnir geti ekki skoðað myndir. 

Ég hallast orðið meira að ljósmyndabókum en albúmum. Einfaldlega vegna þess að mér finnst formið skemmtilegra auk þess sem hægt er að byggja árið upp sem vegferð með texta. Ómetanlegt.

Nokkur íslensk fyrirtæki bjóða upp á þessa þjónustu. Ég er hinsvegar að vinna með forrit sem heitir Blurb. Það er mjög auðvelt í vinnslu og alger snilld. Ekki skemmir fyrir að bækurnar eru mun ódýrari en þær sem hægt er að gera hérlendis. 


#12 Uppfæra snyrtiveskið mitt


Æji já. Úff. Ég er svo mikill lúði. Snyrtiveskið mitt er eins og hjá afdalabónda. Trú storí! Alveg ferlegt. Samanstendur af maskara, tveggja sentimetra augnblýandi og gamalli púðurdós. Af hverju? Æji ég veit það ekki. Bæði af því að þetta kostar allt lifur og nýru auk þess sem ég er held ég miklu meiri strákur en stelpa. 

Rekst stundum á færslur á veraldrarvefnum þar sem stelpur eru að fara yfir innihald snyrtiveskisins sem og að lýsa fyrir landanum sinni daglegu meiköpp rútínu. Ó lord. Ég fæ svo mikið fælnis- og kvíðakast að lesa þetta. Bæði virðist nauðsynlegt að vera milljónamæringur sem og vera heimavinnandi til þess að ná þessum ósköpum á daglegum basis. 

Allavega. Snyrtiveskið er á plani. Stefni þó ekki á konunglega uppfærslu, aðeins að kynna mér það allra helsta - já og kannski splæsa í nýjum blýanti. 


#13 Íhuga nánustu framtíð


Á nokkurra ára fresti geng ég í gegnum mikla almenna krísu. Ég er í einni slíkri núna. "Hvað ætla ég að verða og gera þegar ég er orðin stór - krísan". Eftir því sem ég hugsa meira um þetta, því ringlaðri verð ég. Hvar langar mig að búa? Hvað langar mig að gera? Langar mig að læra? Hvað þá? Sálfræði? Arkitekt? Ljósmyndun? Hönnun?

Prófa að búa hvar? Edenborg, London, París eða Róm?

Þessum spurningum langar mig að svara sjálfri mér á árinu. Mun því taka reglulega töflufundi, með sjálfri mér. 


#14 Klára drög að bók


Ég er með hugmynd á teikniborðinu, eða skrifborðinu öllu heldur, sem ég stefni á að drafta upp á árinu. 


Er þetta ekki bara orðið fínt? Svona meðfram því að leitast við að vera góð móðir og kærasta, já bara besta útgáfan af sjálfri mér. 

Eins og ég segi, þá eru þetta áfrom, ekki heit. En, ég mun greina frá gangi mála, ójá. 

Endilega lækið þessa

Ást og friður. 

2 comments:

  1. Sko mína! Er með slatta af góðum hugmyndum að vel skrifuðum ,,orðaforðakláms" bókum sem ég held að þér muni líka (t..d. Ljósa, Karitas án titils, Himnaríki og helvíti) Já og pant koma með að Stórurð, upp Súlur, hlaupa og taka hálfan skrokk á móti þér beint frá bónda. Við erum viðbúin, tilbúin með frysti hérna megin fyrir sláturtíðina næsta haust. Hlakka til að fylgjast með þessu hjá þér. LOF! H

    ReplyDelete
  2. This comment has been removed by the author.

    ReplyDelete