Tuesday, June 14, 2016

KonMari


Úff. Þar sem mér er lífsins ómögulegt að reyna að fylgjast með og hvað þá glöggva mig á þessum forsetakosningum hef ég ákveðið að snúa mér að einhverju öðru. Af hverju er mér það ómögulegt?

Jú. Sko. Í fyrsta lagi finnst mér þær hafa staðið yfir í tvö ár, svo langur og fjörugur hefur aðdragandinn verið. Í öðru lagi þarf ég að beita mig valdi til þess að horfa á sjónvarp yfirleitt, horfi varla á minn eigin þátt hvað þá annað.

Nei krakkar, ég hef ákveðið að henda mér á kaf í „KonMari-aðferðina“ í stað þess að reyna að horfa á þessa umræðuþætti.

Nú er von þið spyrjið, KonMari, um hvað er manneskjan eiginlega að tala? Jú, það skal ég aldeilis segja ykkur.

KonMari er aðferð, þróuð af japönsku konunni Marie Kondo, sem skrifaði bókina The Life-Changing Magic of Tidying: A simple, effective way to banish clutter forever, þar sem hún lýsir aðferð sinni til þess að fara í gegnum allar sínar veraldlegu eigur og losa sig við drasl og óreiðu að eilífu. Þetta eru vissulega stór orð, en eftir að hafa lesið bókina og kynnt mér málið er ég sannfærð um að hún hefur hárrétt fyrir sér.

Þetta er reyndar ekki ný fluga sem flaug á ennið á mér heldur læt ég alltaf svona þegar fer að vora, þá hellist yfir mig óstjórnleg löngun í að taka til. Þá meina ég ekki að moppa og setja í þvottavél, nei, heldur fara í gegnum alla skápa, flokka og losa mig við. Já, ég veit, hljómar undarlega, en hér talar líka kona sem hefur meiri áhuga á þvotti en góðu hófi gegnir.

Marie Kondo, nýja besta japanska vinkona mín, segir að ferlið taki allt að sex mánuðum ef vel á að vera, en persónulega ætla ég aðeins að taka sumarið í þetta.

Aðferðin gengur út á það að fara í gegnum allt dótið sitt og losa sig við hvern hlut sem ekki vekur gleði hjá manni. Taka á einn flokk fyrir í einu, til dæmis eldhúsáhöld, safna þeim öllum saman á einn stað og meta hvert og eitt. Ef maður er ekki handviss um leið og hluturinn er tekinn upp, mælir hún með því að við losum okkur við hann. Þannig er farið í gegnum alla hluti á heimilinu. Flokkarnir sem hún nefnir eru föt, bækur, smámunir og tilfinningalegir hlutir. Smámunir innihalda allt frá raftækjum til handklæða til bréfaklemma. Tilfinningalegir hlutir geta verið t.d. ljósmyndir, fyrstu barnaskórnir eða gamlar dagbækur.

Það er þó ekki svo ég sé að fara að henda þessum hlutum, heldur losa mig við þá, gefa til hjálparstofnana eða selja einhverjum öðrum en það sem er óþarfi fyrir mér er kannski nauðsyn fyrir næsta mann.

Ég sé þetta sem andlega tiltekt, ekki síður en veraldlega, það léttir svo mikið á sálinni að vera ekki að burðast með allskonar óþarfadrasl í kringum sig – svona af því bara.

Dæmi um flokkana mína: Leikföng barna, raftæki og snúrur, digitalgögn:myndir, digitalgögn:skjöl, skrautmunir á veggjum og í hillum, matur í ísskáp og frysti, fatnaður, útiföt og skór (æjæj), verkfæri, lyf og vítamín. Þetta og svo allt hitt.

Er nú búin að vera að hlaupa í þetta í viku og er búin með helling, alveg tólf flokka! Flyt vonandi fljótlega milli húsa og stefni þá á að fara aðeins með helming þeirra hluta sem í kringum mig eru.


Ehhh, já. Ég átti alveg krydd sem runnu út 2009. 



Einn þriðji af eldhúsdótinu mínu fær framhaldslíf annarsstaðar. 



Hver notar uppskriftabækur lengur? Ekki ég, þetta er allt á netinu. Ég losaði mig við þær flestar, nema auvitað gersemið sem ég fékk eftir ömmu Jóhönnu, bestu uppskriftir veraldar í þessari dásamlegu stílabók. 



Hvað þarf ein stelpa að eiga mörg skrúfjárn?




Meðan aðrir fóru út á lífið um síðustu helgi sat ég og flokkaði skrúfur og nagla. Nú er Gyða Sól KonMöruð í drasl!



Garn-kassinn fékk aldeilis að finna fyrir því. 



Átt mun auðveldara með að fara í gegnum bækurnar mínar en ég hélt og mun fara með fulla kassa á bókasafnið hér á Reyðó fljótlega. 




Svo varð ég bara að KonMara garðinn, svona fyrst ég var í þessum ham. Ekki á ég sláttuvél svo mikið er víst og því var ég búin að humma þetta fram af mér, allt of lengi. Druslaðist loksins í þá aðgerð í gær og Guð minn almáttugur! 

Ok. fór næstum að grenja. Ég á stærstu lóð í bænum og það tók mig þrjá tíma að slá og raka. Þrjá tíma! Að vísu var óræktin orðin slík að ég þurfti að tví-slá og tví-raka og því jafnaðist þetta á við meðal heyskap á 400 kinda sauðfjárbúi. 

Alla jafna er alveg ljómandi gott að vera "síngúl" - bæði átakalaust og frelsandi. En á svona dögum, beint ofan í bílakaup með tilheyrandi umræðu um bremsluklossa og blöndunga, þá langar mig í kærasta - fjadinn hafi það! Nú eða þá ráðsmann. Nei, alls ekki ráðsmann, vinnumann. Samdi meira að segja auglýsinguna í huganum þegar ég var að berja helvítis sláttuvélina í gang í hundraðasta skipti.  


Vinnumaður óskast - nánast í sveit

Auglýsi eftir duglegum, iðnum, vinnu- og útsjónarsömum karlmanni. Þarf að geta gengið í öll verk, allt frá heyskap til húsverka. Verður að vera vel gefinn, glaðlyndur, skemmtilegur, röggsamur og "sjálfdrifinn" (vá, nýtt og algerlega frábært orð) og laus við símafíkn. Ekki myndi skemma fyrir að hann gæti spilað á gítar, væri hávaxinn og dökkhærður. Skegg er skilyrði.  

Er þetta til of mikils ætlast? Svona menn liggja alveg á lausu er það ekki?




Næst á dagskrá er fatnaður heimilisins, Geymi skóna um stund. Og börnin mín. 



No comments:

Post a Comment